„Maður tímir ekki að missa þessar gömlu myndir“

Grindvíkingar sækja það sem mestu máli skiptir í bæinn.
Grindvíkingar sækja það sem mestu máli skiptir í bæinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íbúar í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík fara nú í fylgd með viðbragðsaðilum til að endurheimta verðmæti úr húsum sínum.

Einn úr hverri fjöl­skyldu get­ur farið inn í sitt hús og hef­ur um fimm mín­út­ur til að sækja lífs­nauðsynj­ar eða gælu­dýr, en sumir telja jafn mikilvægt að bjarga minningum sem festar hafa verið á filmu. 

Tíma ekki að missa góðar minningar

Á meðan bíða fjölskyldur þeirra í bíl fyrir utan bæinn, en blaðamaður mbl.is gaf sig á tal við Sigríði Sverrisdóttur og Hans Vera, sem bæði biðu eftir eiginkonum sínum sem höfðu farið inn í bæinn að sækja eigur þeirra.

Sigríður segir það helst vera ljósmyndir sem konan hennar vilji bjarga. Þær hafi þegar verið farnar að huga að því að pakka á föstudagskvöldið þegar rýmingarskipunin var gefin út.

„Maður tímir ekki að missa þessar gömlu myndir sem bera í sér gamlar og góðar minningar.“

Sigríður Sverrisdóttir og eiginkona hennar vildu helst bjarga fjölskyldualbúmunum.
Sigríður Sverrisdóttir og eiginkona hennar vildu helst bjarga fjölskyldualbúmunum. mbl.is/Hermann

Var hætt að lítast á blikuna

Hans nefnir einnig ljósmyndir sem kona hans hafi augastað á að sækja ásamt nauðsynjum.

„Bara það sem við þurfum núna strax, bæði föt og já minningar. Konan mín er að hugsa um einhverja kassa með gömlum skyggnum sem hún vill ekki að týnist eða hverfi,“ segir Hans. 

Hann segir fjölskyldunni hafa verið hætt að lítast á blikuna á föstudaginn og hafi því keyrt í bæinn til að fá sér að borða og taka sér hlé frá skjálftunum. Þeim hafi þá borist fregnir af sprungunni á Grindavíkurvegi og þá tekið ákvörðun um að gista í bænum. 

Hans Vera og fjölskylda hans sækja nauðsynjar og ljósmyndir.
Hans Vera og fjölskylda hans sækja nauðsynjar og ljósmyndir. mbl.is/Hermann
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert