„Ég ætla nú meira að tala út frá hjartanu en að styðjast við ræðu,“ sagði Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, í ávarpi sínu á samverustund í Hallgrímskirkju í kvöld.
„Það hefur ekki farið fram hjá þjóðinni, nokkrum manni, hvað við höfum gengið í gegnum, Grindvíkingar, síðustu viku og einkum síðustu dagana,“ sagði bæjarstjórinn.
Hann sagði mikið lagt á bæjarbúa í þessum aðstæðum. Grindvíkingar hefðu í nokkur ár búið með eldgos og jarðskjálfta, sem nágranna í bakgarðinum, en hafi fram að þessu verið lausir við að standa frammi fyrir því sem sé raunveruleikinn í dag.
„Það eru ekki nema um það bil tveir dagar síðan við vorum aðallega að fást við það vandamál að það myndi fara af heitt vatn af öllu Reykjanesinu,“ sagði Fannar. Í ljós hafi komið á föstudaginn að málið væri alvarlegra en svo.
Bæjarstjórinn rifjaði upp atburðarás föstudagsins og sagði marga hafa þurft að flýja heimili sín án fata til skiptanna og helstu nauðsynja. Sem betur fer hafi rýming tekist skjótt og vel. Því megi þakka æðruleysi íbúanna og fumleysi viðbragðsaðila.
„Óvissan er auðvitað það sem fer með okkur. Við vitum ekki hvert framhaldið verður. Við vonumst til þess að það muni ekki gjósa. Við höfum verið lánsöm með þessi gos og staðsetningu þeirra hingað til, sem ekki hafa truflað okkur. Nú er allt önnur staða uppi.“
Fannar sagði það forréttindi að fá að kynnast viðbragðsaðilum og því fólki sem standi að baki þjóðinni á tímum sem þessum.
Það sama gildi um landsmenn, sveitarstjóra og ráðherra, sem öll hafi sýnt samhug og boðið Grindvíkingum aðstoð sína.