Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin beini athygli sinni að Grindvíkingum og þeirri þjónustu sem tryggja þarf fyrir þá, sem er meðal annars húsnæði og skólaganga barna.
Aðeins eitt mál var rætt á ríkisstjórnarfundinum sem haldinn var í dag og var það ástandið á Reykjanesskaga, þar sem Grindavík hefur verið rýmd vegna jarðhræringa og yfirvofandi eldsumbrota.
Katrín segir að ríkisstjórnin hafi rætt ólíkar sviðsmyndir af ástandinu á Reykjanesskaga og hvaða aðgerðir þær sviðmyndir kalla á af hálfu stjórnvalda. Ríkisstjórnin sé í þéttu sambandi við vísindafólk og viðbragðsaðila um ástandið.
„Það eru þættir sem við erum að beina sjónum okkar að sem varða bara íbúa Grindavíkur sem við þurfum að vinna með sveitarstjórninni í Grindavík,“ segir hún við mbl.is og nefnir í því samhengi húsnæðismál og skólagöngu barna „og annað slíkt sem er allt í uppnámi á meðan þessi rýming varir“.
„Ég held að allir landsmenn séu að fylgjast með þessari stöðu stanslaust,“ bætir hún við. „Dekkstu sviðsmyndir geta haft slæmar afleiðingar á byggðina í Grindavík og ég held að allir átti sig á því.“
Bæjarstjóri Grindavíkur fundaði með borgarstjóra og bæjarstjóra á höfuðborgarsvæðinu í dag um að finna úrræði fyrir grindvísk skóla-og leikskólabörn.
Katrín bendir á að þar sem ekki sé ekki óhætt að vera á því svæði þar sem reisa á varnargarðana sé ekki hægt að halda áfram byggingarvinnunni eins og stendur.
„Við munum hins vegar halda ótrauð áfram með lagafrumvarp um heimildir til þess að reisa varnargarða, og fjármögnun varnarmannvirkja verður til umræðu á þingi á morgun,“ segir hún.
„Ég held að landsmenn allir séu með hjartað og hugann hjá Grindvíkingum núna. Það er auðvitað ofboðslega stór ákvörðun að mælast til þess að fólk yfirgefi heimili sín. Þetta er ákvörðun sem er erfitt einhvern veginn að skilja en ég er búin að hitta Grindvíka og aðra og þetta er efst í huga allra,“ segir Katrín.
„Þannig hugur okkar er hjá Grindvíkingum. Ég held að við skiljum hversu erfitt þetta er – ekki aðeins það að yfirgefa heimili sín heldur líka þessi óvissa um hve lengi rýmingin varir og hvað mun gerast,“ bætir hún við og hrósar forystufólki í Grindavík fyrir frábæra frammistöðu við að halda utan um sitt fólk í gegnu þessa atburði.
„Íslendingar kunna þetta.“