Stærstu skjálftarnir nú við Kleifarvatn

Jarðskjálftar á Reykjanesskaga frá miðnætti í nótt og til kl. …
Jarðskjálftar á Reykjanesskaga frá miðnætti í nótt og til kl. 18.15. Kort/Veðurstofa Íslands

Stærstu jarðskjálftarnir sem riðið hafa yfir Reykjanesskaga undanfarnar klukkustundir hafa átt upptök sín við Kleifarvatn, nánar tiltekið undir Sveifluhálsi við vatnið vestanvert.

Einn skjálfti varð þar klukkan 15.40, af stærðinni 3,2 samkvæmt mælingum Veðurstofunnar.

Annar stærri skjálfti varð klukkan 17.38, en hann er talinn hafa verið 3,7 að stærð.

Líklegt verður að teljast að um sé að ræða svokallaða gikkskjálfta, sem leysa þá spennu úr jarðskorpunni sem kvikugangurinn hefur valdið á skaganum.

Stöðug smáskjálftavirkni við kvikuganginn

Tiltölulega tíðindalítið hefur annars verið á skaganum í dag, hvað skjálftavirkni varðar.

Vart verður þó við stöðuga smáskjálftavirkni eftir kvikuganginum endilöngum, frá Stóra-Skógfelli í norðri og í suð-suðvestur undir Grindavík og þaðan út með sjó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert