„Við reiknum frekar með að eitthvað gerist í Eldvarpasprungunni,“ segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.
Undanfarna daga hefur eldgos í Sundhnúkagígaröðinni þótt líklegast, út frá mælingum jarðvísindamanna. Ármann kveðst þó telja gos í Eldvörpum líklegra. Ekki sé þó hægt að útiloka aðra möguleika.
Í kjölfar mikillar skjálftavirkni á föstudaginn kom í ljós að 15 km langur kvikugangur hefði myndast undir Grindavíkurbæ, suðvestur af Sundhnúkagígaröðinni. Hafa vísindamenn haft áhyggjur af því að kvika komi upp á yfirborðið á þeim slóðum.
Í samtali við mbl.is sama kvöld kvaðst Ármann reikna með gosi í Eldvörpum eða norðvestur af Þorbirni, frekar en austan við Grindavíkurveg við Sundhnúk.
Ármann segist enn reikna með því að gjósa fari í Eldvörpum, það mat sitt hafi ekki breyst.
„En eitthvað gerðist á föstudaginn, í Sundhnúksbungunni, sem var svona frekar óvenjulegt því allir voru með augun á Eldvörpunum og Illahraunsgígunum,“ segir hann. Innskotið sem varð á föstudaginn opnaði þannig á möguleikann á gosi fyrir ofan Grindavík.
Ármann segir það enn geta gerst að kvikan komi upp við Sundhnúkagíga. Komi eitthvað upp þar gæti það gerst við Sýlingafell. Þá hafi menn þó tíma til að reyna að stjórna hrauninu þannig að það renni framhjá Grindavíkurbæ.
„Ef það er þarna inni í Sýlingafelli, eins og það virðist vera núna, þá eru það kannski betri fréttir en á föstudaginn, þegar innspýtingin fór alveg undir bæinn.“
Hann segir það hafa komið sér verulega á óvart að kvikugangurinn hafi náð svona langt suður á bóginn. Því mjög skýr merki landriss hafi verið í Eldvörpum og Illahraunsgígum, sem sáust ekki að miklu marki í Sundahnúkssprungunni.
„Hins vegar verða menn að horfa á það að þetta eru flekamót. Flekarnir eru að fara í sundur því að spennan er orðin of há. Svo að því leytinu til kemur þetta kannski ekki á óvart.“
Í Sundhnúkssprungunni hafi ekki verið eins áberandi kvikusöfnun og á öðrum stöðum.
„Það er spurning ef þetta hefur verið flekamótaspennulosun. Þá hefur kvika náttúrulega farið upp. En einhverra hluta vegna komst hún ekki upp á yfirborðið.“
Þetta segir Ármann vera góðar fréttir. Gliðnun á flekamótunum hafi þó haft í för með sér miklar skemmdir í Grindavík.
Sprungurnar í Grindavíkurbæ þurfi ekki að þýða að kvika sé á leiðinni upp þar.
„Þetta sást mjög vel í Kröflu, út í Grástykki. Það fór allt á fullt en það gaus aldrei þar.“
Ármann segist vona að sú hreyfing sé búin. „Þá fjara út líkur á eldgosi á þessu svæði hægt og rólega,“ segir hann. Líklegra sé þá að virknin haldi áfram í Eldvörpum, þar sem sé meira pláss fyrir eldgos.
Spurður hvenær hann haldi að til goss komi segir Ármann sennilega munu fara að gjósa innan nokkurra daga. „Það er spurning hvort þessi Sundhnúkssprunga kemur upp með gos, eða hvort þessi mikla færsla er búin í henni og þetta haldi áfram út í Eldvörp eða Illahraun.“
Það komi í ljós með mælingum næstu daga.