Mist Þ. Grönvold
„Þetta þýðir eiginlega bara að við þurfum að vera mjög mikið á tánum,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, spurð út í stöðu mála á Reykjanesskaga að lokinni tíðindalítilli nóttu.
Hún segir litlar breytingar hafa átt sér stað í nótt. „Það er stöðug skjálftavirkni, langmest þarna í kvikuganginum, en svo líka á þessum gikksskjálftasvæðum suður af Reykjanestá. Annars eru litlar breytingar.“
Þrátt fyrir að dregið hafi úr skjálftavirkni á undanförnum klukkustundum segir Sigríður það ekki draga úr líkum á því að eldgos eigi sér stað.
„Við höfum séð það í fyrri gosum að skjálftavirknin hefur minnkað jafnvel talsvert áður en kvikan kemur upp á yfirborðið,“ segir Sigríður. „Við verðum bara að bíða og sjá hvað gerist og fylgjast með.“
Hún bætir við að klukkan 9:30 hefst stöðufundur þar sem sérfræðingar Veðurstofunnar og fulltrúar frá almannavörnum fari yfir þau gögn sem liggja nú fyrir. Þá sé möguleiki á því að staða mála skýrist að einhverju leyti.