Tilbúnir að flytja báta úr höfninni

Varðskipið Þór er til taks við Hópsnes.
Varðskipið Þór er til taks við Hópsnes. Ljósmynd/Landhelgisgæsla Íslands

Varðskipinu Þór var siglt austur fyrir Hópnes í gærkvöld og heldur sig þar ennþá að sögn Auðuns F. Kristinssonar, framkvæmdastjóra aðgerðarsviðs Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.

Ákveðið var að sigla skipinu austar í ljósi þess að sérfræðingar Veðurstofunnar töldu að eldgos gæti hafist úti í sjó.

„Þór er við Hópsnesið og við erum bara í biðstöðu og bíðum eftir að fá næsta yfirlit frá jarðfræðingunum og sjá hvað þeir segja og hvernig útlitið er fyrir daginn. Við erum líka með tvær þyrlur til taks og um leið og eitthvað gerist þá verður allt sett í gang miðað við þær aðstæður sem koma upp,“ segir Auðunn í samtali við mbl.is.

Bíða eftir grænu ljósi 

Auðunn segir að það sé verið að skoða nokkur verkefni og eitt af þeim er að flytja eitthvað af bátunum sem eru í höfninni í Grindavík yfir í aðra höfn í samvinnu við eigendur þeirra.

 „Við bíðum bara eftir að fá grænt ljós frá jarðfræðingunum til að fara inn á þetta svæði,“ segir Auðunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert