Andlát: Sigmundur Guðbjarnason rektor

Sigmundur Guðbjarnason, prófessor emeritus og fyrrv. rektor Háskóla Íslands, lést á fimmtudaginn, 92 ára að aldri. Hann fæddist 29. september 1931 á Akranesi. Foreldrar hans voru Guðbjarni Sigmundsson, verkamaður á Akranesi, f. 2.4. 1897, d. 24.1. 1990, og Guðný Magnúsdóttir húsfreyja, f. 27.10. 1902, d. 18.11. 1984. Sigmundur lauk stúdentsprófi frá MA árið 1952, hlaut Dipl. Chem. í efnafræði frá Technische Hochschule í München 1957 og lauk doktorsprófi frá sama skóla 1959.

Sigmundur var yfirverkfræðingur og framleiðslustjóri hjá Sementsverksmiðju ríkisins 1959-1960. Hann sinnti rannsóknum og kennslu í lífefnafræði og lyflæknisfræði við Wayne State University School of Medicine í Detroit 1961-1962 og var aðstoðarpróf. og próf. þar 1962-1970. Hann var próf. í lífefnafræði og lyflæknisfræði við Indiana University Medical Center í Indianapolis 1970-1971. Sigmundur varð prófessor í efnafræði við Háskóla Íslands 1970 og var þar til starfsloka 2001. Hann var rektor HÍ frá 1985-1991. Hann var einnig gistiprófessor við nokkra erlenda háskóla, þar á meðal við Heidelberg- og Oxford-háskóla.

Sigmundur var forstöðumaður Efnafræðistofu Raunvísindastofnunar HÍ 1971-1983 og varaforseti verkfræði- og raunvísindadeildar HÍ 1975-1977, deildarforseti 1977-1979. Hann sat í stjórn Sementsverksmiðju ríkisins 1971-1981 og var stjórnarformaður 1973-1977. Hann var einnig formaður stjórnar Náttúruverndar ríkisins 1995-1999. Hann gegndi formennsku í fjölda nefnda og ráða, var m.a. formaður Rannsóknarráðs Íslands 1994-1997. Að auki var hann formaður Hollvinasamtaka HÍ 1995-1997 og Mannverndar 1998-1999. Þá var hann forseti Rótarýklúbbs Reykjavíkur 1999-2000. Sigmundur hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín í þágu vísindanna, og hlaut hann m.a. riddarakross fálkaorðunnar 1985 og stórriddarakrossinn 1991. Hann var kjörinn meðlimur í Konunglegu sænsku verkfræðivísindaakademíunni árið 1987.

Þá var hann kosinn Fellow of the International Academy of Cardiovascular Sciences, FIACS, 2002, og kosinn Fellow of the International Society for Heart Research 2004. Sigmundur hlaut Aldarviðurkenningu Verkfræðingafélags Íslands 2012, „Þeir plægðu akurinn“,“Þekkingar frumkvöðull heiðraður fyrir forystu um uppbyggingu náms í raunvísindum við Háskóla Íslands, eflingu rannsókna við skólann og forystuhlutverk við mótun stuðningskerfis fyrir vísinda- og tæknirannsóknir og nýsköpun á Íslandi”.

Sigmundur var frumkvöðull að stofnun SagaMedica–Heilsujurta ehf. (nú SagaNatura ehf.) sem stundar rannsóknir á íslenskum lækningjurtum og þróar náttúruefni eða fæðubótarefni úr völdum lækningajurtum fyrir innlendan og erlendan markað, m.a. SagaPro, SagaMemo og VOXIS.

Eftirlifandi eiginkona Sigmundar er Margrét Þorvaldsdóttir fyrrv. blaðamaður. Börn þeirra eru Snorri, f. 24.10. 1954, fyrri kona hans var Una Björk Gunnarsdóttir og eiga þau dótturina Írisi. Seinni kona hans er Sara Jewett og eru börn þeirra Jessica og Eric; Logi, f. 22.1. 1962; Hekla, f. 9.11. 1969, d. 13. 1. 2013; Ægir Guðbjarni, f. 19.3. 1972, kona hans er Anna Linda Bjarnadóttir lögmaður og eru synir þeirra Viktor Aron og Alex Tristan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka