„Ég held að það sé bara ónýtt að öllu leyti“

Andri Már Helgason við eina af fjölmörgum sprungum í húsi …
Andri Már Helgason við eina af fjölmörgum sprungum í húsi þeirra hjóna. Þau voru nýflutt í húsið en telja það nú algjörlega ónýtt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ófögur sjón blasti við hjónunum Margréti Huld Guðmundsdóttur og Andra Má Helgasyni, íbúum í Grindavík, þegar þau komu inn á heimili sitt í Víkurbraut í dag. Sprungur eru víða um íbúðina og lagnir höfðu farið í sundur þannig að heitt vatn hafði lekið víða.

„Mig langar ekki að búa hérna aftur“

„Ég held að það sé bara ónýtt að öllu leyti. Mig langar ekki að búa hérna aftur. Við erum nýflutt, fluttum hingað í júlí,“ segir Margrét spurð um hvað hafi tekið á móti þeim þegar þau komu.

„Gríðarlegar sprungur, þú horfir í gegnum alla íbúðina,“ bætir Andri við og þau taka fram að veggir hússins séu gliðnaðir. „Það var ein sprunga sem við heyrðum koma á föstudaginn. Svo er hún orðin tommu breið, allavega,“ segir Andri.

Margrét Huld var að taka saman hluta búslóðar hjónanna þegar …
Margrét Huld var að taka saman hluta búslóðar hjónanna þegar blaðamann bar að garði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margrét segir ástandið hafa verið mun verra en þegar þau löbbuðu út á föstudagskvöldið klukkan níu vegna rýmingarinnar. „Þá gáfumst við upp að reyna að taka dótið saman.“

Sprungnar lagnir

Mikill hiti mætti hjónunum þegar þau fóru inn í íbúðina. Það er ljóst að einhverjar lagnir hafa farið í sundur og tjónið eftir því. „Það var svo mikið gufubað þarna inni að ég er búinn að skrúfa fyrir bæði heita og kalda vatnið. Maður finnur fyrir því hvernig það er vatnssoðið parketið.“

Þegar hjónin mættu í húsið tók á móti þeim mikill …
Þegar hjónin mættu í húsið tók á móti þeim mikill hiti og ljóst að heitavatnslögn hafði sprungið. Parketið er vatnssoðið að sögn Andra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þau vita ekki hvað tekur við núna, en búa þó við að eiga annað hús erlendis. „Ég held að ég sé ekki búin að ná áttum um það, en við eigum annað hús erlendis. Ætli maður byrji ekki bara þar,“ segir Margrét að lokum.

Sprungur í barnaherbergi hússins.
Sprungur í barnaherbergi hússins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Sprunga í húsi hjónanna.
Sprunga í húsi hjónanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Gólfefnið er víða ónýtt í húsinu eftir vatnsskemmdir.
Gólfefnið er víða ónýtt í húsinu eftir vatnsskemmdir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert