Getur verið lognið á undan storminum

Innviðir í Grindavík eru laskaðir eftir jarðskjálftahrinuna. Þorvaldur bendir á …
Innviðir í Grindavík eru laskaðir eftir jarðskjálftahrinuna. Þorvaldur bendir á að þessi atburður sé sá langumfangsmesti á Reykjanesskaga á síðustu árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorvaldur Þórðarson, pró­fess­or í eld­fjalla­fræði við Há­skóla Íslands, segist vona að atburðarásin við Grindavík sé að lognast út af en þetta geti líka verið lognið á undan storminum.

„Eftir því sem lengri tími líður frá föstudeginum finnst mér ólíklegra að það fari að gjósa í Grindavík. Ef það kemur gos þá finnst mér líklegra að það verði norðar og við Hagafellið eða nálægt því svæði,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur segir að jarðskjálftarnir mælist núna á 5-6 kílómetra dýpi og séu að færast norðar. 

Hvaða þýðingu hefur það?

„Ef þetta var kvikugangur sem fór undir Grindavík á föstudaginn þá hefur dregið verulega úr innflæðinu og kvikan er kannski farin að safnast aftur í hólfið við Þorbjörn sem var þar fyrir. Það eru kannski ekki allra bestu fréttir en betri fréttir en að fá gosið í Grindavík,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur telur nú minni líkur en meiri að eldgos hefjist …
Þorvaldur telur nú minni líkur en meiri að eldgos hefjist á næstunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Metur líkurnar 40/60 á að það gjósi fljótlega

Þorvaldur sagði í samtali við mbl.is fyrir helgina að hann teldi líkurnar 60/40 að það færi fljótlega að gjósa. Spurður hvort hann meti stöðuna öðruvísi í dag segir hann:

„Mér finnst þetta hafa snúist við og sé komið í 40/60 en kannski er það bara óskhyggja hjá mér,“ segir prófessorinn.

Finnst ólíklegt að Grindvíkingar snúi aftur heim í bráð

Þorvaldur var með þeim fyrstu, ef ekki sá fyrsti, sem kölluðu eftir rýmingu í Grindavík og á föstudagskvöldið ákvað lögreglustjórinn á Suðurnesjum að rýma bæinn vegna ráðgjafar almannavarna.

Sérð þú fyrir þér að Grindvíkingar snúi til síns heima í bráð?

„Nei ég sé það ekki fyrir mér. Það eru miklar hreyfingar í bænum og það sjást greinilega miklar skemmdir þar eftir þessa öflugu hrinu. Bara sú staðreynd að þessi skjálftavirkni fór undir bæinn og hefur valdið þessum hreyfingum og brotum þá finnst mér ólíklegt að fólk fari að snúa aftur til Grindavíkur í bráð. Og með það í huga að þetta er fimmta hrinan á fjórum árum og sú langumfangmesta,“ segir Þorvaldur.

Hann segir að þessi atburðarás geti farið aftur af stað þótt hún stoppi núna.

„Við vitum það ekki fyrir víst en þetta getur alveg gerst aftur og jafnvel oftar en einu sinni. Ef við horfum á Kröflu þá gekk þetta þar yfir í tíu ár og margar hrinur sem dundu yfir það svæði á þeim tíma. Við verðum að gera ráð fyrir þessu og horfa á að þetta getur verið möguleiki. Á einhverjum tímapunkti sofnar þetta og hættir og þá er líklegt að við fáum 800 ára hvíld á þessu svæði,“ segir Þorvaldur.

Hann segir vonandi að Íslendingar beri gæfu til að veita Grindvíkingum alla þá aðstoð og félagslegu þjónustu sem þeir þurfi á að halda á þessum tímum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert