Heimaeyjargosið kom öllum að óvörum

Guðmundur Magnússon rifjar upp aðdraganda og eftirmál eldgossins í Heimaey.
Guðmundur Magnússon rifjar upp aðdraganda og eftirmál eldgossins í Heimaey. Samsett mynd/Ólafur K. Magnússon

Eldgosið í sem hófst í Heimaey 23. janúar 1973 kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Enginn vissi neitt sem gat bent til þess að eldsumbrot væru í vændum. 

„En við nánari athugun kom á daginn að um þrjátíu stundum fyrir upphaf gossins varð talsverð hrina af litlum jarðskjálftum undir eynni. Mælingartækin, staðsett á Laugarvatni og í Mýrdal, voru hins vegar ekki nógu nákvæm til að segja til um hvað væri að gerast og engum virðist hafa komið í hug að hætta væri á ferðum,“ svo skrifar Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur og fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu, er hann rifjar upp eldgosið í Vestmannaeyjum á vef sínum Skrifhús nú í morgun. 

Guðmundur bendir á að eldgos í byggð á Íslandi hafi þá verið öllum fjarlæg hugsun, sex þúsund ár voru frá því síðasta gos varð á Heimaey og Helgafell, eitt helsta kennileiti eyjarinnar myndaðist.

Tilefni skrifanna er sú ógn sem steðjar að Grindavík.

Reyndi á alla innviði samfélagsins

„Við björgunarstarfið og móttöku flóttafólks frá Eyjum reyndi í skjótri svipan og af miklum þunga á alla innviði íslensks samfélags. Á þessum tíma voru Almannavarnir ríkisins varla búnar að slíta barnsskónum og stjórnvöld höfðu enga reynslu af því að bregðast við svo stórfelldu neyðarástandi sem gosið leiddi af sér.

En margt stuðlaði að því að betur fór en á horfðist. Þyngst vegur samtakamáttur Vestmannaeyinga sjálfra og raunar allra landsmanna; hver maður sem vettlingi gat valdið vildi leggja björgunarstarfinu og móttöku hinna brottfluttu, og síðar uppbyggingunni, lið.“

Allur flotinn í höfn

Guðmundur rifjar upp að svo heppilega vildi til að allur skipafloti Vestmannaeyinga var í höfn. Tilviljun réði því en undir venjulegum kringumstæðum hefðu flest skip verið úti á miðunum. Hins vegar var bræla og því öll skip í höfn. 

Því var það svo að um hálftíma eftir að eldgossins varð vart var fyrsti báturinn með fólk innanborðs farið af stað til lands og innan tveggja klukkustunda voru flestir bátarnir byrjaðir að sigla með íbúana á brott. 

Um sjötíu bátar sigldu með fólk og allar tiltækar flugvélar í Reykjavík voru sendar af stað, auk björgunarþyrla varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Upprifjun Guðmundar má lesa í heild sinni á vef hans, Skrifhús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert