Hvað er sigdalur?

Stórar sprungur hafa myndast víða um Grindavík, meðal annars þessi …
Stórar sprungur hafa myndast víða um Grindavík, meðal annars þessi sem var miðsvæðis í bænum, á gatnamótum Króks og Austurvegar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigdalur uppgötvaðist í Grindavíkurbæ í gær og liggur hann í gegnum bæinn. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir dalinn skýrt merki um að kvika sé komin á mjög grunnt dýpi undir bæinn. Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofu Íslands í jarðskorpuhreyfingum segir að svo sé ekki endilega. 

Þingvellir eru gott dæmi um sigdal.
Þingvellir eru gott dæmi um sigdal. mbl.is/Hari

„Þetta þýðir að það varð kvikuhlaup niður frá Sundhnúkagígum, undir Grindavík og út í sjó. Við það gliðnar jörðin, í þessu tilviki um á bilinu einn til þrjá metra. Þegar svoleiðis atburður verður þá myndast svona siggengi og siggengisdalur. Það sem við erum að horfa á er að bergið springur inni í siggendisdalnum og það sígur niður,“ segir Benedikt spurður að því hvað í ósköpunum sigdalur sé. 

„Besta dæmið um svona er Þingvellir, nema þar erum við ekki að tala um að það sé merki um kvika undir heldur bara gliðnun,“ segir Benedikt.

Jörð hefur gliðnað í Grindavík og sigdalur myndast.
Jörð hefur gliðnað í Grindavík og sigdalur myndast. Ljósmynd/Vegagerðin

Gliðnun hefur ekkert með kviku að gera

Benedikt útilokar alls ekki að kvika sé að troða sér nær yfirborðinu í sigdalnum, en þetta gæti líka þýtt annað.

„Þetta þýðir ekki að kvika sé mjög nálægt yfirborði, bara að þetta hefur gliðnað svona mikið. Það er túlkunin og við höfum margséð það í öðrum sambærilegum atburðum. Það útilokar samt ekki að kvika komi upp, það bara hefur ekkert með það að gera. Það er annað sem þarf til þar,“ útskýrir Benedikt. 

Benedikt segir engu að síður að mikil hætta skapist af svona sigdölum, sérstaklega í þessu tilviki vegna þess að hann myndast svo hratt.

„Hins vegar þegar þú ert með sigdal sem myndast svona rosaleg hratt, þá eru miklar sprunguhreyfingar og hraðar sprunguhreyfingar, það getur skapað hættu sem er algjörlega sérstök. Það hefur ekkert með kviku að gera, það myndast bara sprungur á yfirborðinu,“ segir Benedikt. 

Hætta af sprungunum

Þessari hættu vita viðbragðsaðilar af og taka með í reikninginn er þeir hleypa íbúum Grindavíkur aftur inn á heimili sín til þess að sækja verðmæti.

„Hin hættan er auðvitað líka til staðar, möguleikinn á að það komi gos. Við erum með vöktun á svæðinu og erum í beinu sambandi við viðbragðsaðila,“ segir Benedikt.

Viðbragðsaðilar eru meðvitaðir um hættuna í Grindavík.
Viðbragðsaðilar eru meðvitaðir um hættuna í Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert