Kort: Svona liggur sprungan í gegnum Grindavík

Miklar skemmdir urðu vegna sprungu á gatnamótum nálægt íþróttamiðstöðinni.
Miklar skemmdir urðu vegna sprungu á gatnamótum nálægt íþróttamiðstöðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á nýju korti af Grindavík má sjá hvernig yfirborðssprunga liggur í gegnum bæinn. 

Sprungan markar eystri mörk sigdalsins sem myndast hefur eða dýpkað eftir jarðhræringarnar síðustu daga.

Sjá má sprunguna á gulu punktalínunni á kortinu hér að neðan, sem fengið er frá rannsóknareiningu Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá. Þeim gögnum sem kortið er reist á var safnað í gær, 12. nóvember.

Gula punktalínan sýnir sprunguna sem liggur í gegnum Grindavíkurbæ. Gagnanna …
Gula punktalínan sýnir sprunguna sem liggur í gegnum Grindavíkurbæ. Gagnanna var aflað í gær, 12. nóvember. Kort/Rannsóknareining Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá
Gula svæðið vinstra megin á kortinu er talið hafa lækkað …
Gula svæðið vinstra megin á kortinu er talið hafa lækkað um einn metra í hræringunum. Kort/Rannsóknareining Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá

Skemmdir víða sökum sprungunnar

Miklar skemmdir á gatnamótunum nálægt íþróttamiðstöð Grindavíkur liggja eftir þessari sprungu.

Víðar um bæinn má sjá skemmdir af völdum sprungunnar.

Stór sprunga liggur þvert í gegnum Grindavíkurbæ.
Stór sprunga liggur þvert í gegnum Grindavíkurbæ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fóru með dróna í gær

Ingibjörg Jónsdóttir landfræðingur útskýrir í samtali við mbl.is að jarðvísindamenn hafi farið með dróna í gær og hnitað inn þá staði þar sem þeir sjá einhverjar breytingar á yfirborði jarðar, t.d. skemmdir á vegum.

Voru þau gögn sett inn á loftmynd og almennt grunnkort. 

Sigdalur og sprungur beggja vegna

Þegar þetta var borið saman við þekktar sprungur lentu nýju skemmdirnar á nákvæmlega sama stað.

Ingibjörg segir að á svæðinu hafi áður verið sigdalur sem hafi afmarkast af sprungum annars vegar við austurhluta og hins vegar við vesturhluta hans.

Vegna gliðnunar síðustu daga hafa þessar gömlu sprungur farið aftur af stað.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert