„Líkur á eldgosi enn verulegar“

Magnús Tumi Guðmunds­son, jarðfræðingur og prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla …
Magnús Tumi Guðmunds­son, jarðfræðingur og prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur og prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir að staða jarðhræringa á Reykjanesskaga sé svipuð og hún hefur verið undanfarið.

Segir Magnús í samtali við mbl.is að líkur á eldgosi verði enn að teljast verulegar og að mestar líkur séu á því að gos komi upp á því svæði þar sem jarðskjálftavirknin hefur verið mest, milli Grindavíkur og Sundhnúks. Hann segir þá litlar líkur á gosi úti í sjó.

Hægir á en þetta er ekki búið

„Það hægir svona frekar á atburðarásinni en hún er ekki búin. Enn virðist vera að flæða einhver kvika inn í ganginn. Það er bara brot af því sem það var þegar það var mest þegar það var langt yfir þúsund rúmmetrar á sekúndu. Nú er það kannski 50 sinnum minna eða eitthvað en það er nú samt dálítið.“

Hann segir að við séum ekki komin á enda atburðarásarinnar. Gögn sýni að það sé ekki mikið að gerast utan strandarinnar og líkur taldar mun minni nú að til goss komi þar en var á tímabili.

Reiknar með svipuðu gosi og undanfarið

Magnús segir að ef komi til goss megi reikna með að það verði svipað og þau sem hafa orðið undanfarið.

„Svona í þeim stílnum miðað við hvernig þetta er að þróast. Það er ekki hægt að útiloka neitt og þess vegna er ekki óhætt að fara til Grindavíkur. Það er ekki skemmtileg staða en sú staða sem við búum við núna.“

Mjög stór berggangur á mjög stuttum tíma

Magnús segir að þær sprungur sem hafa myndast í og við Grindavík núna séu á allt öðrum skala en mynduðust við fyrri gos okkar tíma á Reykjanesskaga.

„Þetta er miklu stærra þarna. Þetta gerðist alveg gríðarlega hratt og það varð mikil opnun. Þessi sprungumyndun, gliðnun og landsig í miðjunni er allt umfangsmeira en í fyrri gosunum.“

Það segir okkur að þarna hafi myndast mjög stór berggangur á mjög stuttum tíma að sögn Magnúsar sem segir svo að það sé spurning hversu mikill þrýstingur sé á kvikunni, hvort hún nái til yfirborðs.

„Það er ljóst að þrýstingur er ekki mikill þannig að hún er ekkert að flýta sér. Þá er það innflæðið á næstunni, hvort það heldur áfram, sem mun stýra því hvort þetta endar með gosi eða ekki.“

Magnús útskýrir þá hvernig kvikan lifir í tiltölulega stuttan tíma þegar hún er komin inn í ganginn.

„Hún flæðir á meira dýpi og inn í ganginn og svo situr hún þar. Ef það er ekki þrýstingur til að ýta henni lengra þá fer hún ekki lengra.“

Stórar sprungur hafa myndast víða um Grindavík, meðal annars þessi …
Stórar sprungur hafa myndast víða um Grindavík, meðal annars þessi sem er miðsvæðis í bænum, á gatnamótum Króks og Austurvegar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í jarðskorpunni um ókomna tíð

Hann segir kvikuna strax byrja að storkna þar sem umhverfið í bergganginum er kalt. Það fari eftir því hversu breiður gangurinn sé hversu langan tíma það taki kvikuna að storkna.

„Ef hann er hálfur metri á breidd þá storknar kvikan á einum degi en ef hann er tveir til þrír metrar á breidd þá storknar hún á mánuði en kvikan byrjar strax að storkna.“ Segir hann þá kviku sem hefur storknað þá verða þannig. Að storknuð kvika geti ekki aftur orðið að fljótandi kviku.

„Þarna verður berggangur í jarðskorpunni um ókomna tíð. Það er bara spurning hvort hann skilar einhverri kviku upp til yfirborðsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert