Ljótar skemmdir á grunnskólanum komnar í ljós

Skólabyggingarnar eru skemmdar eftir skjálftana.
Skólabyggingarnar eru skemmdar eftir skjálftana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skólabyggingar Grunnskóla Grindavíkur hafa orðið fyrir nokkrum skemmdum. Unnið er að lausn fyrir nemendur grunnskólans svo að bekkir og árgangar geti áfram lært saman ef til þess kemur að fjarvera þeirra frá bænum verður langvarandi.

Grunnskóli Grindavíkur er í tveimur byggingum á sitthvorum stað í bænum. Annars vegar er Hópskólabyggingin sem er fyrir 1.-4. bekk og svo önnur skólabygging fyrir 5.-10. bekk á Ásabraut.

Í skólabyggingunni við Ásabraut, sem er eldri og byggð í þremur áföngum á síðustu áratugum, urðu skemmdirnar á veggjum nokkrar, gólfdúkur orðinn bylgjukenndur og flísar á gólfi ónýtar á sumum stöðum.

Gólfdúkur í skólabyggingu Grunnskóla Grindavíkur.
Gólfdúkur í skólabyggingu Grunnskóla Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hindri ekki skólagöngu á nýjan leik

„Sprungurnar eru staðbundnar og á skilum bygginga,“ segir Eysteinn Þór Kristinsson, skólastjóri grunnskóla Grindavíkur, í samtali við mbl.is.

Hann segir skemmdirnar ljótar en að þær komi ekki upp á óvæntum stöðum. Skemmdirnar hindri ekki skólagöngu á nýjan leik, ef tækifæri til þess gefst.

Blaðamaður og ljósmyndari mbl.is litu inn í þessa byggingu fyrr í dag og var greinilegt að um nokkrar skemmdir var að ræða, eins og myndir sýna.

Sumar flísar eyðilögðust.
Sumar flísar eyðilögðust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skemmdirnar „ekki yfirþyrmandi“ 

Hópskóli er nýrri bygging en varð þó fyrir einhverju hnjaski að sögn Eysteins.

„Auðvitað eru skemmdir en þær eru, að því er ég best veit, ekki yfirþyrmandi,“ segir Eysteinn um Hópskólabygginguna. Veggir urðu fyrir skemmdum á milli skila ásamt kerfisloftum og loftplötum.

Hópskólabyggingin er byggð í tveimur áföngum og því eru sprungurnar sem mynduðust þar á skilum á milli viðbyggingar.

„Það hafa orðið smá skemmdir á skilum þeirra, því byggingarnar hreyfast ekki eins í skjálftanum. Það hafa orðið sprungumyndanir á skilum, en það er svo sem eitthvað sem við þekktum frá fyrri skjálftum.“

Sprungur sjást víða.
Sprungur sjást víða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefna á að finna skólabyggingu utan Grindavíkur fyrir nemendur

Skólastjórnendur og bæjaryfirvöld hafa fundað með almannavörnum, fræðslustjórum á höfuðborgarsvæðinu og menntamálaráðuneytinu til að finna staðsetningu þar sem meginþorri nemenda gæti lært saman. Eins og staðan er núna þurfa grunnskólanemendur Grindavíkur að ganga í nokkra mismundandi skóla.

Hann segir að Grindvíkingar fái nú andrými til að bjarga verðmætum sínum úr Grindavík en vinna sé í fullum gangi við að finna lausn fyrir nemendur svo þeir geti áfram lært saman.

„Við erum á fullu að vinna, ef til þess kemur, að því að vera með lausnir þar sem við getum kallað saman bekki og árganga,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka