Myndskeið: Uppgötvaði djúpa holu nálægt Grindavík

Arnar Kárason, íbúi í Grindavík, gekk fram á djúpa holu í jarðveginum þegar hann fór inn á rýmingarsvæðið.

Holan, sem sjá má á meðfylgjandi myndbandi, er við Stað sem er nálægt golfskálanum og kirkjugarðinum í Grindavík.

Myndskeiðið var tekið upp í innkeyrslu við fjárhús þegar Arnar fór þangað að sækja hross í gær.

Arnar segist hafa séð litla holu þar og kíkt ofan í hana. Hann hafi þá ákveðið að prófa að sparka niður. Þá hafi jarðvegurinn gefið sig og komið í ljós stór og mikil hola.

Sjá má kirkjugarðinn í Grindavík bak við sprunguna.
Sjá má kirkjugarðinn í Grindavík bak við sprunguna. Ljósmynd/Aðsend
Sprunga sást greinilega á svæðinu.
Sprunga sást greinilega á svæðinu. Ljósmynd/Aðsend

Töluverð dýpt

„Dýptin hefur verið svona 3–4 metrar. Svo voru einhver göng þar sem jarðvegurinn var að síga lengra niður. Þau lágu enn lengra niður,“ segir Arnar í samtali við mbl.is.

Arnar segir sprunguna greinilega á yfirborðinu. „Það er sprunga sem liggur yfir allt svæðið, alveg frá golfvellinum yfir þetta, meðfram kirkjugarðinum og yfir allt túnið sem hestarnir voru á,“ segir Arnar.

Arnar segir sig og samferðamenn sína ekki hafa orðið hrædda þrátt fyrir að jörðin hafi molnað undan fótum þeirra. Þeir hafi þó passað að keyra nákvæmlega sömu leið til baka og þeir komu.

„Sprungan var yfir veginn á köflum,“ segir Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert