Náðu að bjarga fleiri en hundrað dýrum

49 köttum var bjargað úr Grindavík í dag.
49 köttum var bjargað úr Grindavík í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

49 köttum, 4 hömstrum, 90 bréfdúfum, sauðfé, froskum og páfagaukum var bjargað úr Grindavík í dag.

Þetta kemur fram í facebook-færslu samtakanna Dýrfinnu sem hafa undanfarna daga kallað eftir því að fá að fara inn á svæðið og bjarga þeim dýrum sem eftir eru. 

Í færslunni segir: „Við erum afar þakklát eftir daginn í dag!“

Þá eru þakkir sendar til almannavarna, lögreglunnar á Suðurnesjum og þeirra björgunarsveita sem komu að björguninni, en jafnframt til Íslands fyrir að gjósa ekki í dag. 

Það voru sumsé 49 kettir, 4 hamstrar, 90 bréfdúfur, sauðfé, froskar og páfagaukar sem náðust úr Grindavík í dag. Enn eru 12 dýr skráð á lista hjá Dýrfinnu og því biðla þau til þeirra sem náðu í dýrið sitt í dag, en hafa ekki látið Dýrfinnu vita, að gera það svo hægt sé að meta hversu mörg dýr eru enn í Grindavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert