Vegagerðin birti rétt í þessu myndskeið og myndir sem sýna þá miklu eyðileggingu sem hefur verið á Nesvegi, vestan við Grindavík. Risastórar holur og sprungur eru í veginum og er hann nú metinn ófær.
Vegurinn hefur verið lokaður umferð, líkt og aðrir vegir til Grindavíkur, en björgunarsveitir og viðbragðsaðilar hafa nýtt hann í undanþáguverkefnum.
Vegagerðin segir hins vegar ljóst nú að vegurinn sé alveg ófær og að ástand hans fari síversnandi dag frá degi. Viðgerð hans yrði nokkuð umfangsmikil, en farið verði í hana ef heimild fæst frá almannavörnum.