Reynt að útvega sem flestum tímabundið húsnæði

40 manns gistu í fjöldahjálparstöðinni í Kórnum í nótt.
40 manns gistu í fjöldahjálparstöðinni í Kórnum í nótt. mbl.is/Stefán Einar

Gylfi Þór Þor­steins­son, for­stöðumaður fjölda­hjálp­ar­stöðva, segir að tvær fjöldahjálpastöðvar séu opnar fyrir Grindvíkinga, í Kórnum og í Keflavík en þeirri sem var á Selfossi var lokað í gær.

„Nóttin gekk ljómandi vel fyrir sig. Það eru 40 manns hjá okkur í Kórnum og 30 í Keflavík en við lokuðum fjöldahjálparstöðinni á Selfossi í gær. Nú er sú vinna í gangi að útvega sem flestum tímabundið húsnæði og það tekst vonandi á næstu dögum,“ segir Gylfi Þór í samtali við mbl.is.

Gylfi segir að það séu allir boðnir og búnir að aðstoða, hvort sem það eru einstaklingar eða fyrirtæki.

„Það eru allir tilbúnir að leggja lóð á vogarskálarnar í þessu ástandi. Við höfum fengið allan þann varning sem við höfum þurft á að halda. Við höfum líka þurft að vísa ýmsu frá því viljum ekki vera með of mikið af varningi ef koma skyldi til lokana hjá okkur,“ segir Gylfi.

Höldum opnu á meðan það er nauðsyn

Hann segir að Rauði krossinn sé í góðu sambandi við hverfasíðurnar og ef eitthvað vanti þá sé hægt að senda út tilkynningar á þær og fólk sé fljótt að bregðast við kallinu.

„Við munum halda fjöldahjálparstöðvunum opnum á meðan það er nauðsyn en stefnan er að reyna að koma sem flestum í tímabundið húsnæði og þá breytist þetta meira í upplýsingamiðstöð. Hvar hún verður á bara eftir að koma í ljós. Eðli fjöldahjálparstöðva er að þær eru opnar í eins skamman tíma og hægt er því við þurfum að koma fólkinu í varanlegra húsnæði,“ segir Gylfi Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert