Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að til greina komi að byggja húsnæði fyrir Grindvíkinga í anda viðlagasjóðshúsanna svokölluðu, sem byggð voru eftir Vestmannaeyjagosið 1973, til að mæta neyð Eyjamanna.
„Það hefur alveg komið til tals á undanförnum misserum að koma upp svona húsum eða svona fjölbýlishúsum því við erum með betri tækni í dag,“ segir innviðaráðherra í samtali við mbl.is.
Hann segir fyrirmyndir af tímabundnum fjölbýlishúsum séu þegar til og bendir þar á höfuðborgir Norðurlandanna. Viðlagasjóðshúsin voru nefnd í höfuð á sjóðnum sem stofnaður var í kjölfar gossins í Vestmannaeyjum og fjármagnaði byggingu þeirra.
„Þannig já, við höfum verið að skoða þetta og þetta kallar kannski enn frekar á slíkt,“ bætir hann við en á laugardag sagði hann við mbl.is aftur á móti að það væri ekki komið til umræðu að fara í byggingu nýrra húsa undir Grindvíkinga, í því tilfelli að bærinn færi undir hraun.
Hvað ef fólk hættir að vilja búa á Reykjanesskaga, þar sem nýtt eldsumbrotatímabil er hafið þar? Hefur það eitthvað verið til skoðunar?
„Við erum í dag með umtalsverðan húsnæðisvanda og þess vegna hefur umræða um svona komið upp – við erum með þetta til skoðunar. Ef það verður þannig að allt að þessar tólf hundruð íbúðaeiningar í Grindavík bætast ofan á, þá höfum við líka verið með það til skoðunar. Það vill svo til að það er sennilega álíka fjöldi af íbúðum í söluferli eða klárast á tveimur eða þremur mánuðum,“ segir ráðherra og heldur áfram.
„Það að koma upp svona húsnæði sem væri í anda gömlu viðlagasjóðshúsanna eða meira kannski tímabundið húsnæði er eitthvað sem kemur klárlega til skoðunar og eitthvað sem við erum að skoða.“
Í dag ræðir Alþingi frumvarp um verndun mikilvægra innviða á Reykjanesskaga, sem sem forsætisráðherra lagði fram á laugardag.
„Ég heyrði ekki annað en að það væri almenn samstaða um það,“ segir Sigurður Ingi um frumvarpið.
Seinni umræða um frumvarpið verður haldin kl. 17 en það hefur vakið athygli að frumvarpið kveður á um árlegt forvarnagjald á allar húseignir, sem nemi 0,08‰ af brunabótamati samkvæmt lögum um brunatryggingar. Gjaldið á að skila milljarði í ríkiskassann á hverju ári.
Nú eru nokkrir sem settu spurningarmerki við fjármögnun frumvarpsins, og sagt að það væri ekki verið að teygja sig í sjóði sem þegar voru til. Var það tekið til skoðunar?
„Þetta er auðvitað þannig að Náttúruhamfaratrygging, og hennar brunabótastofn, þetta eru auðvitað tryggingar. Hérna er verið að tala um aðgerðir í forvarnarskyni. Það væri kannski ekki auðvelt að færa það undir eitthvað annað. Þannig hugmyndin var hér að hækka þennan stofn tímabundið og setja í raun og veru sérsjóð til þess að fjármagna forvarnaraðgerðir en ekki tryggingaraðgerðir,“ segir Sigurður Ingi og heldur áfram:
„Á undanförnum árum hefur verið talað um hamfarasjóð, eða slíkt, þar sem hugsanlega væri búið að skeyta saman hamfaratryggingu, Ofanflóðasjóði og hugsanlega Bjargráðasjóði og einhverju slíku saman í einn sjóð. Það hefur verið bent á að við þurfum að gera meira í forvarnarskyni, meðal annars til að takast á við loftslagsbreytingar, eitt af því er til að mynda sjóvarnir, sem eru í vaxandi máli með hækkandi sjávarhæð. Síðan verri veður, sem kallar á meiri tjón, eins og við höfum séð. Þá þyrftum við að fara í umtalsverðar sjóvarnir sem við erum ekki með í þessum sjóðum. Þannig það að leggja á gjald tímabundið til þess að takast á við nákvæmlega forvarnir, vegna þessara eldsumbrota og jarðhræringa á Reykjanesskaga, væri þá kannski fyrsta skrefið að einhverju stærra.“