Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist telja að landsmenn allir séu tilbúnir til þess að leggja sitt af mörkum sem nú er á Reykjanesskaga. Frumvarp forsætisráðherra um verndun mikilvægra innviða á Reykjanesskaga var til umræðu á Alþingi í dag.
Frumvarpið felur m.a. í sér að árlegu forvarnargjaldi verði komið á allar húseignir sem nemur 0,008% af brunabótamati samkvæmt lögum um brunatryggingar.
Gjaldið á að skila milljarði í ríkiskassann á hverju ári.
„Það er eðlilegt að spyrja spurninga, meðal annars um gjaldtökuna og ég held ég hafi farið vel yfir það í svörum mínum í þinginu. Ég tel að þarna sé farið fram af mikilli hófsemd,“ segir Katrín.
Katrín segir að eðlilega vakni margar spurningar um tæknilegri hliðar frumvarpsins því verið er að víkja til hliðar af mörgum lagabálkum. Það sé þó fjöldi lögfræðinga og stofnana til taks til að tryggja að allt gangi smurt fyrir sig til þess að frumvarpið geti orðið að lögum sem allra fyrst.
Spurð hvort komi til greina að bíða til áramóta, líkt og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata lagði til segir Katrín að það skipti máli að Alþingi sendi skýr skilaboð um að heimild sé til að ráðast í þessar framkvæmdir og að þær verði fjármagnaðar.
Nú hefur fólk verið að spyrja sig, duga varnargarðar og ég spyr því, munu varnargarðar duga til?
„Við getum ekki lofað því. Við höfum jákvæða reynslu af fyrri gosum, þessir leiðigarðar sem voru byggðir á sínum tíma, þeir skiluðu árangri. Þetta er eitthvað sem almannavarnir, náttúruvísindamönnum og verkfræðingar hafa legið yfir. Þegar ég er spurð hvort ég geti sagt að það verði allt í lagi segi ég: nei ég get ekki gert það, en ég lít á það sem skyldu hins opinbera að gera það sem hægt er til að varna skaða.“