TF-SIF kölluð heim ef þörf krefur

TF-SIF á flugi.
TF-SIF á flugi. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki hefur verið talin þörf á því að nota flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, vegna jarðhræringanna í nágrenni Grindavíkur.  

Flugvélin er í verkefni fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópu, í Miðjarðarhafi og er hún núna stödd í Catania á Ítalíu, að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Gæslunnar.

„En ef aðstæður breytast og vísindamenn og almannavarnir meta stöðuna svo að vélina þurfi þá verður hún kölluð heim,” segir Ásgeir.

Nýst vel á hálendinu

Hann nefnir að vélin hafi nýst afar vel hérlendis í atburðum sem hafa til dæmis orðið uppi á jökli eða hálendi. Staðsetningin núna hafi ekki kallað á að senda þurfi eftir henni. 

„Vísindamenn vita nákvæmlega hvað vélin getur og við erum þá tilbúin ef þeirra mat yrði svo að það þyrfti vélina,” bætir hann við og segir samning Gæslunnar við Frontex þannig að hægt sé að kalla hana heim með litlum sem engum fyrirvara þegar náttúruhamfarir verða á Íslandi. 

Varðskipið Freyja á Skjálfandaflóa.
Varðskipið Freyja á Skjálfandaflóa. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Freyja leysir Þór af hólmi annað kvöld

Spurður út í varðskipið Þór, sem er í viðbragðsstöðu fyrir utan Grindavík, segir hann að varðskipið Freyja muni leysa það af hólmi annað kvöld.

Venjulega er eitt skip Landhelgisgæslunnar á sjó í hvert sinn en núna eru þau tvö vegna stöðunnar sem er uppi.

Alls eru 18 manns um borð í Þór. Spurður út í birgðastöðuna segir hann að farið verði út í skip í hádeginu með aukakost, auk þess sem einhver vaktaskipti verði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert