„Það er ljós í myrkrinu“

Frá aðgerðum í Grindavík í gær.
Frá aðgerðum í Grindavík í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Páll Erland, forstjóri HS Veitna, segir að staðan hvað varðar vatn og rafmagn í Grindavík sé óbreytt frá því í gær en dreifikerfið í bænum er víða laskað eftir jarðskjálfta og vegna jarðgliðnunar.

„Við bíðum áttekta eftir niðurstöðum vísindamanna og almannavarna um hvort það sé eitthvað hægt að fara inn á svæðið og hvort það passi við mögulega aðkomu íbúa að eignum sínum, sem hlýtur að vera í forgangi,“ segir Páll við mbl.is.

Heitavatnslaust er á skyggða svæðinu á meðfylgjandi mynd.
Heitavatnslaust er á skyggða svæðinu á meðfylgjandi mynd. Mynd/HS Veitur

Páll segir að HS Veitur hafi öryggi starfsfólks ávallt í fyrirrúmi og fyrirtækið vinni náið með almannavörnum að því að meta hvort og þá hvenær mögulegt verði að ráðast í viðgerðir.

„Það er ljós í myrkrinu. Grindavík er að mestu með rafmagn og hefur verið með það frá því við náðum að kippa því í liðinn á laugardaginn eftir stuttan útslátt. Það er líka hiti í bænum en á vissum stöðum sjáum við í okkar stjórnkerfi að sérstakt kerfi sé bilað. Við vitum að eftir allt sem hefur gengið á að það er eflaust meira bilað út í húsagötum,“ segir Páll.

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert