Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að framvinda jarðhræringa á Reykjanesskaga undanfarnar vikur sé með stærri atburðum á síðari tímum þegar hún mælti fyrir frumvarpi um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga á Alþingi í dag.
Allsherjar- og menntamálanefnd fær nú frumvarpið til meðferðar og verður það tekið til annarrar umræðu á fundi sem hefst á Alþingi að nýju klukkan 17.
„Ákvörðunin almannavarna um rýmingu í Grindavík á föstudagskvöldið var fyrst og fremst tekin með öryggi íbúa í huga en eins og við öll getum ímyndað okkur þá er það risastór ákvörðun að biðja fólk um að yfirgefa heimili sitt með skömmum fyrirvara. Við finnum öll hversu þungt þessi óvissa hvílir á þeim. Það er verið að leitast við að skapa rými til að íbúar geti sótt nauðsynlegustu hluti í húsinu en þó alltaf með öryggi fólks í fyrirrúmi,“ sagði Katrín með annars í ræðu sinni.
Katrín sagði að frumvarpið snúist um að veita heimildi og skapa svigrúm til að ráðast í fyrirbyggjandi framkvæmdir til að verja innviði og íbúabyggð í Grindavík vegna yfirvofandi náttúruvár.
„Það eru víðtækar heimildir í almannavarnalögum til að grípa til aðgerða eftir að hættu eða neyðarstigi hefur verið lýst yfir en mun minna svigrúm er til staðar til að ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir á fyrri stigum og nú er það svo að þegar við erum til að mynda núna stödd á neyðarstigi eru auðvitað ekki færi til þess að vera að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum því við stefnum ekki fólk í hættu til þess,“ sagði Katrín.
Í frumvarpinu er lögð til gjaldtaka til þriggja ára í þeim tilgangi að standa undir kostnaði við fyrirbyggjandi framkvæmdir og gjaldið rennur í ríkissjóð. Er lagt til að það verði innheimt af brunatryggðum húseignum.
„Spurningar hafa vaknað hvort aðrar leiðir séu heppilegri eins og til að mynda nýta fjárveitingar ofanflóðasjóðs. Okkar mat er það að þetta fyrirkomulag sé bæði sveigjanlegra en að fara með fjármögnun framkvæmdanna í gegnum ofanflóðasjóðs sem eru í umsjón ofanflóðanefndar. Ofanflóðasjóður fjármagnar að venju samkvæmt verkefni sem hafa framkvæmdaáætlun til 5 ára. Hér er verið að tala um mjög snögga ákvarðanatöku þar sem þarf að bregðast hratt við og leggja til gjald sem leggst þá á brunatryggðar húseignir en áhrif gjaldtökunnar á vísitölu neysluverðs eru talin óveruleg,“ sagði forsætisráðherrann.