315 starfsmenn Háskóla Íslands hafa skrifað undir yfirlýsingu sem lýsir yfir „stuðningi við palestínsku þjóðina, baráttu hennar fyrir tilvistarrétti sínum gegn ísraelskri nýlendustefnu og þjóðarmorði.“
Með yfirlýsingunni er brugðist við ákalli frá Birzeit háskólanum í Palestínu um viðbrögð alþjóðlega háskólasamfélagsins.
„Við neitum að standa hljóð hjá á meðan ísraelsk stjórnvöld fremja þjóðarmorð á Palestínu og tökum ákallinu frá starfsfólki Birzeit háskólans um að uppfylla akademíska skyldu okkar um að afhjúpa óréttlæti með því að leita ávallt sannleikans, halda fjarlægð frá ríkisstyrktum áróðri og að gera þá sem standa fyrir þjóðarmorði, sem og þá sem það styðja, ábyrga fyrir gjörðum sínum,“ segir í yfirlýsingunni.
Kemur þar einnig fram að undirritað starfsfólk hvetji íslensk stjórnvöld, sem og alþjóðasamfélagið, til þess að beita sér fyrir því að framferði ísraelskra stjórnvalda verði stöðvað og neyðaraðstoð komið inn á Gasa sem fyrst, og beita sér fyrir því að enda aðskilnaðarstefnuna.
„Sem akademískt starfsfólk munum við sniðganga akademískar stofnanir í Ísrael og afþakka samstarf við ísraelskar menntastofnanir og akademískt starfsfólk sem starfar fyrir stofnanir sem eru samsekar þjóðarmorði þar til stjórnvöld þar í landi láta af stríðsglæpum og aðskilnaðarstefnu og hætta þjóðernishreinsunum á Gaza og Vesturbakkanum. Við munum hins vegar leggja okkur fram við að styðja og auka samvinnu við akademískt starfsfólk í Palestínu.“
Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér.