Fá fimm mínútur milli 12 og 16 í dag

Munir sóttir í Grindavík í gær.
Munir sóttir í Grindavík í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeir íbúar Grindavíkur sem gátu ekki farið til síns heima í gær til að sækja verðmæti fá heimild til að fara inn á svæðið í gegnum lokunarpóst á milli klukkan 12 og 16 í dag. Hvert heimili fær fimm mínútur. Hvert svæði í bænum fær ákveðið tímahólf sem hægt er að sjá hér að neðan.

Fyrirtæki hafa heimild til þess að fara inn á svæðið í gegnum lokunarpóst frá klukkan 10 til 12 í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Fram kemur að áætlunin geti breyst án fyrirvara. Aðgangur íbúa inn á svæðið er aðeins fyrir þá sem komust ekki í gær. 

Munir sóttir í Grindavík í gær.
Munir sóttir í Grindavík í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nánar úr tilkynningunni:

„Íbúar á eftirfarandi svæðum geta farið á einkabílum í fylgd viðbragðsaðila frá klukkan 12:00 -14:00:

12:00 Víðigerði-Austurhóp-Miðhóp-Efrahóp-Fálkahlíð-Norðurhóp-Suðurhóp

12:30 Túngata 2-22 (austan megin götunnar), Marargata- Mánagata-Mánasund-Hafnargata-Seljabót-Hópsvegur-Austurvegur

Aðrir íbúar þurfa að fara í bíl með viðbragðsaðilum frá klukkan 14:00-16:00. Ákvörðun þessi er byggð á áhættumati og til að tryggja öryggi fólks.

13:00 Víkurhóp-Stamphólsvegur-Vesturhóp-Túnagata 1-25 (vestan megin götunnar), Víkurbraut

13:30 Skiptastígur-Árnastígur-Glæsivellir-Ásvellir-Sólvellir-Blómsturvellir-Iðavellir

14:00 Gerðavellir – Selsvellir –Höskuldavellir-Hólavellir-Litluvellir-Baðsvellir-Efstahraun

14:30 Heiðarhraun-Hvassahraun-Staðarhraun-Borgarhraun-Arnarhraun-Leynisbrún

15:00 Fornavör-Suðurvör-Norðurvör-Staðarvör-Laut-Ásabraut-Sunnubraut-Hellubraut-Vesturbraut-Kirkjustígur-Lundur (Bjarg)

Þetta verður skipulögð og stýrð aðgerð undir stjórn lögreglu. Íbúar sem fá að fara inn til Grindavíkur eiga að koma á söfnunarstaðinn sem er bílastæðið við gossvæðið, við Fagradalsfjall.

Það þarf að koma um Suðurstrandarveg að austan til Grindavíkur að söfnunarstað. Þar fær fólk frekari leiðbeiningar. Frá söfnunarstað verður ekið á einkabílum í fylgd viðbragðsaðila inn í bæinn.

Heimild til þess að fara inn í bæinn er ábyrgðarhluti og ekki léttvæg ákvörðun og þýðir alls ekki að svæðið sé að öðru leyti opið fyrir umferð. Þetta verður skipulögð og stýrð aðgerð undir stjórn lögreglunnar.

Til athugunar fyrir íbúa:

Ekki fara ef þú þarft ekki nauðsynlega að fara.

Aðeins verður leyfi fyrir einn aðila að fara inn á svæðið, fyrir hvert heimili.

Skráið niður lista yfir það sem þið hyggist sækja áður en lagt er af stað.

Munið eftir húslykli.

Búr fyrir gæludýr ef þörf er á.

Poka eða annað undir muni.

Íbúar hafa stuttan tíma inni á heimilinu.

Þau sem fara mega ekki vera með bráðaofnæmi fyrir dýrum því það verða gæludýr með í för í bakaleiðinni.

Þetta er eingöngu til þess sækja mjög mikilvæga hluti s.s. gæludýr, lífsnauðsynleg lyf, hugsanlega vegabréf eða aðra ómissandi hluti fyrir heimilisfólk.

Heimilt verður að keyra ökutæki sem skilin voru eftir við rýmingu, út af svæðinu frá Grindavík, en eingöngu í fylgd viðbragðsaðila.

Þessu fylgir áhætta og því mjög mikilvægt að allir sem að henni koma hlýði vandlega öllum fyrirmælum lögreglu sem stýrir þessari aðgerð og virði tímamörk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert