Hermann Nökkvi Gunnarsson
Strikað var yfir heiti Grindavíkurbæjar og Bláa lónsins á skiltum Vegagerðarinnar við afleggjara Grindavíkurvegar á Reykjanesbraut til þess að upplýsa ferðamenn um að það sé ekki hægt að komast til Grindavíkur.
Þetta segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is.
Spurður að því hvort að Vegagerðin hafi áður gripið til þess ráðs að strika yfir heiti sveitarfélaga á skiltum vegagerðarinnar segir hann nei.
„Ég held alveg örugglega ekki, þetta eru náttúrulega alveg fordæmalausar aðgerðir. Það hefur aldrei verið rýmt heilt bæjarfélag og vegurinn þangað lokaður dögum saman. Þannig að þetta er svona smávegis tilraunastarfsemi líka,“ segir G. Pétur.
Sólarhringsvakt hefur verið við Grindavíkurveg frá því að honum var lokað á föstudag til að tryggja að enginn óviðkomandi keyri veginn.
G. Pétur segir að Vegagerðin hafi einnig haft það í huga að með þessu þá væri hægt að takmarka óþarfa umferð á lokunarpósta.
Strikað var yfir heitin í gær.