Forgangsmál að tryggja afkomu íbúa

Katín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að það sé forgangsmál að tryggja afkomu íbúa í Grindavík. Bæði þeirra sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín og þeirra sem geta ekki mætt til vinnu. 

Hún segir jafnframt að nú sé hægt að hefja framkvæmdir við gerð varnargarða á Reykjanesskaga eftir að Alþingi samþykkti í gær frumvarp ráðherra um vernd mik­il­vægra innviða á Reykja­nesskaga. 

„Það var gengið frá öllum pappírum snemma í morgun varðandi lögin þannig að það er hægt að ráðast í þetta verkefni sem almannavarnir hafa óskað eftir að fá að ráðast í vegna þeirra almannahagsmuna sem eru undir, sem varða auðvitað dreifingu á heitu vatni og rafmagni á Reykjanesskaga,“ segir Katrín í samtali við mbl.is. Hún bætir við að síðan sé það sjálf byggðin í Grindavík sem sé undir í frumvarpinu. 

Mikil óvissa

Aðspurð segist Katrín fylgjast grannt með gangi mála á svæðinu.

„Það eru auðvitað miklar skemmdir og mikið tjón, og auðvitað ljóst að íbúar geta nú tilkynnt sitt tjón til náttúruhamfaratryggingar. En það er líka tjón á öðrum þáttum, götum og öðrum innviðum á vegum bæjarfélagsins.“

Katrín tekur fram að óvissan sé enn mjög mikil og ekki vitað hve lengi rýmingin muni standa lengi yfir. 

Mikilvægustu málin

Nú sé aðalmálið að vinna að því, í samráði við hagsmunaaðila, hvernig tryggja megi afkomu íbúanna. Ekki bara þeirra sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín heldur einnig þeirra sem geta ekki mætt til vinnu.

„Sú vinna stendur yfir og það er forgangsmál. Annað forgangsmál er auðvitað húsnæðismálin þar sem er búið er að kortleggja húsnæði sem mögulega er á lausu. Húsnæði sem er sem sagt ekki búið í núna eða orlofsíbúðir verkalýðsfélaga eða annað slíkt, þannig að við höfum einhver svona lengri tíma úrræði fyrir þau sem þess þurfa,“ segir Katrín. 

Síðan er verið að skoða rými fyrir samkomustað fyrir Grindvíkinga. Þar eigi að vera bæði félagslegur og sálfélagslegur stuðningur. Loks sé lögð áhersla á skólamálin, sem hafi verið ráðist í af miklum krafti. Hún segir að það sé mikilvægt að fjölskyldur hafi ákveðið svigrúm eftir þetta áfall. Það sé unnið í þéttu samráði við skólayfirvöld í Grindavík. 

Eðlilegt að stöndug fyrirtæki leggi sitt af mörkum

Spurð hvort hún telji eðlilegt að einkafyrirtæki, eins og HS Orka og Bláa lónið, komi með einhverjum hætti að þeim kostnaði við að reisa varnargarðana, sem hljóðar upp á 2,5 milljarða kr., segir Katrín:

„Já, það finnst mér. Og auðvitað er þessi kostnaður við þennan varnargarð, það má ekki tala um það sem eina kostnaðinn við þetta verkefni. Kostnaðurinn er svo miklu stærri og það er alveg ljóst að fyrirtæki á svæðinu sem eru stöndug muna þurfa að leggja sitt af mörkum inn í þetta allt saman.“

Aðspurð segist hún hafa rætt við forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins um aðkomu atvinnurekenda til að tryggja afkomu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert