Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, segir að gliðnunin í sprungunni sem fer beint í gegnum Grindavík geti vel haldið áfram að vaxa.
„Þessi gliðnun getur haldið áfram í nokkra daga eða vikur, sprungurnar stækkað og meginhluti Grindavíkur sigið,“ segir hann og bætir við að sigdalurinn í Grindavík sé dæmigerður fyrir gliðnunarhreyfingar.
Hann segir að sigdalurinn geti reynst jákvæður að því leytinu til að hann gæti gert kvikunni erfiðara fyrir að leita upp á yfirborðið.
„Þetta er gamall sigdalur sem er aftur að fara í gang. Þetta eru gamlar sprungur sem voru þarna og út af þessum flekahreyfingum þá fara þær aftur í gang,“ segir Ármann að lokum.