Gos verði á sprungunni ef af verður

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðing­ur og pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við Há­skóla …
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðing­ur og pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við Há­skóla Íslands, segir að gos komi upp á sprungunni sem myndaðist um helgina ef af verður. Sprungan nær frá Sundhnúkagígaröðinni í gegnum Grindavík og út í sjó. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

„Ef til goss kemur á næstunni eða í þessum atburðum þá verður það gos á þeirri sprungu sem gliðnaði um helgina og er enn aðeins að gliðna.“

Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við Há­skóla Íslands, í samtali við mbl.is.

Sundhnúkagígaröðin liggur í suð-suðvestur að Grindavík.
Sundhnúkagígaröðin liggur í suð-suðvestur að Grindavík. Ljósmynd/Siggi Anton

Engar vísbendingar um að kvika komi upp annars staðar

„Það eru engar vísbendingar um að kvika komi upp annars staðar en á þeirri sprungu. Það sjást engin merki í Eldvörpum um kvikuhreyfingar eða vísbendingar um að gjósi þar enda leitar kvika jafnan þeirra leiða sem auðveldastar eru upp til yfirborðs.

Við núverandi aðstæður er það kvikugangurinn við Grindavík og Sundhnúkagígaröðina af því að þar er búinn að opnast veikleiki í efri hluta jarðskorpunnar.“

Magnús segir að á meðan gliðnun sé ekki alveg lokið séu ennþá verulegar líkur á að það geti komið gos. Líklegast yrði það þá hliðstætt að stærð við þau sem þegar hafa orðið.

„Ekki er hægt að fullyrða um það hvort þetta endi með gosi og hvorki hvort það yrði á þessari sprungu né hversu stórt það yrði.“

„Þetta er svona að setjast til“

Aðstæður hafa breyst innan Grindavíkur til hins verra en Magnús segir að það geti verið eðlileg þróun.

„Það gæti verið einhver smá gliðnun í sprungunni innan Grindavíkur en svo er líka hitt að þetta er sigið, það er holt undir og þetta er svona að setjast til.

Það er eitthvað sem er viðbúið, sérstaklega ef hún er enn að gliðna eitthvað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert