„Völlurinn lítur ótrúlega vel út miðað við aðstæður og það sem hefur gengið á síðustu daga. Ég hélt að þetta væri miklu verra,“ segir Helgi Dan Steinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur, sem var nýkominn úr vettvangsferð um golfvöllinn í Grindavík þegar mbl.is hafði samband við hann í dag.
„Þessi gjá sem hefur myndast við veginn við völlinn hefur stækkað frá fyrstu myndum sem ég sá,“ segir Helgi.
Hann segir að hálfur kvennateigurinn á 13. braut sé horfinn og hann reiknar með því að hann fari allur.
„Þessi sprunga liggur í átt að golfskálanum og hún tekur síðan mikla beygju í gegnum nýja æfingasvæðið sem ég var að útbúa í sumar og eitthvað uppeftir,“ segir Helgi.
Hann segir að inni í golfskálanum séu brotnar myndir, brotin glös og brotnir diskar en það er eitthvað sem skipti engu máli í þessu samhengi.
Golfklúbbur Grindavíkur er eigandi golfvallarins en leigir landið undir hann af ríkinu.