Stefnt er að verðmætabjörgun fyrirtækja við höfnina í Grindavík frá kl. 10 í dag. Einnig er stefnt að því að íbúar sem ekki komust til bæjarins í gær geti farið þangað eftir hádegi í dag.
Meta þarf þó með hvaða hætti það verður gert, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Almannavarnir ítreka að svæðið er hættulegt. Veðurstofan mælir áframhaldandi og stöðugt sig lands í sigdældinni sem myndast hefur í Grindavík. Sprungur geta myndast án fyrirvara sem og eldsumbrot.
Í tilkynningu almannavarna segir að eldgos sé áfram talið líklegt á svæðinu. Almenningur má alls ekki fara á einkabílum inn á það svæði sem talið er hættulegast sem teygir sig austur fyrir Víkurbraut. Eingöngu verður farið inn á það svæði í fylgd viðbraðgsaðila. Hratt landris mælist við Svartsengi.
Tilkynnt verður um nánara fyrirkomulag þegar skipulag dagsins liggur fyrir.