Dæmi eru um að fólk þurfi að rúnta á milli apóteka á höfuðborgarsvæðinu til þess að kanna hvort ADHD-lyfið Elvanse Adult sé til. Viðvarandi skortur hefur verið á lyfinu síðan í sumar og þó bæði undanþágulyf og samheitalyf hafi komið á markað eftir að Elvanse kom á markað er eftirspurninni ekki annað.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segist ekki geta sagt til um hvenær ástandið verði aftur eðlilegt. Margt spili þar inn í en um sjö þúsund manns eru með Elvanse uppáskrifað. Von er á sendingu af Elvanse til landsins í lok nóvember og sending af samheitalyfi á að berast um svipað leyti eða í byrjun desember.
„Svo eigum við bara eftir að sjá hvort það gengur eftir,“ segir Rúna í viðtali í Dagmálum í dag.
Ríflega 20 þúsund manns eru á ADHD-lyfjum á Íslandi í dag og því er um þriðjungur af þeim á Elvanse. Einnig er skortur á sykursýkislyfinu Ozempic og hefur verið frá því í sumar. Nýlega kom á markað lyfið Wegovy sem er þyngdarstjórnunarlyf og virkar ekki ósvipað og Ozempic
„Það er gífurleg eftirspurn eftir báðum af þessum lyfjum. Þau eru hins vegar ekki það sem við myndum flokka sem lífsnauðsynleg lyf. Það er hægt að nota önnur ADHD-lyf, auðvitað er það ákveðið vesen og fólk er búið að stilla sig inn á þetta. En það eru önnur ágætis ADHD-lyf í boði. Það eru líka önnur lyf við blóðsykurstjórnun og við þyngdarstjórnun eins og Saxenda ef það er verið að horfa á Wegovy, “ segir Rúna.