Það var einn af þeim mælum, sem vísindamenn Veðurstofunnar settu upp á dögunum á Húsafjalli austur af Grindavík, sem nam brennisteinsdíoxíð í andrúmsloftinu í gær og í dag.
Þetta kemur fram á vef stofnunarinnar.
„Vegna þess hversu ónæmar þessar mælingar verða í skammdeginu tók nokkurn tíma að fara yfir og túlka þessi gögn,“ segir þar.
Tekið er fram að austlægar áttir hafi verið undanfarna daga og að ekki sé hægt að útiloka að skjálftavirkni síðustu daga hafi náð að losa um brennisteinsdíoxíð í einhverjum hluta kvikugangsins undir Fagradalsfjalli, sem ekki er enn storknaður síðan í gosinu í ágúst.
Erfitt sé að segja nákvæmlega til um á hvaða dýpi brennisteinsdíoxíð losni úr kvikunni, því ferlið sé háð kvikuþrýstingi. Almennt sé þó talið að kvika þurfi að vera í efstu nokkur hundruð metrum jarðsskorpunnar.
Um er að ræða litrófsgreini sem er mælitæki sem getur numið styrk brennisteinsdíoxíðs í andrúmslofti.
Aðferðin er sögð byggja á að sýnilegt ljós, sem berst í gegnum andrúmloftið, lendi á nema í mælitækinu og er þar greint með tilliti til þess að ákveðna liti eða bylgjulengdir vanti í litrófið sem lendir á nemanum.
Fjallað var um mælana á mbl.is fyrr í dag.
„Brennisteinsdíoxíð gleypir ákveðnar bylgjulengdir ljóss sem veldur því að þær lenda ekki á ljósnema mælitækisins í sama magni og aðrar bylgjulengdir. Neminn skannar ákveðin geira af himninum og gefur því upplýsingar um styrk brennisteinsdíoxíðs innan svæðisins sem mælirinn skannar.“
Mælingar af þessu tagi þurfi dagsljós til að virka og séu því mjög erfiðar að eiga við á veturna á Íslandi, þegar birtustig jafnvel um hábjartan dag er lágt.