Neyðarkynding kostar 2 milljarða

Stórar sprungur hafa myndast í Grindavíkurbæ.
Stórar sprungur hafa myndast í Grindavíkurbæ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfirvöld hafa lagt mat á kostnað við að koma á varaafli á Suðurnesjum ef ekki tekst að verja orkuverið í Svartsengi. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á Alþingi í gær þegar hún mælti fyrir frumvarpi um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

„Svo að við segjum þetta á mannamáli þá snýst þetta um það að gera okkar til að reyna að verja byggðina í Grindavík og orkuverið í Svartsengi. Það liggja auðvitað mikil verðmæti í eignum í sveitarfélaginu Grindavík sem er mikilvægt að vernda ef nokkur kostur er, fjárhagsleg verðmæti og ekki síður tilfinningaleg verðmæti,“ sagði Katrín en í frumvarpinu er lögð til gjaldtaka til þriggja ára í þeim tilgangi að standa undir kostnaði við fyrirbyggjandi framkvæmdir og gjaldið rennur í ríkissjóð. Er lagt til að það verði innheimt af brunatryggðum húseignum. Meðal fyrirhugaðra framkvæmda er uppbygging varnargarða, gerð varnarfyllinga yfir veitumannvirki og gröftur leiðarskurða.

Ljósmynd/Aðsend

Katrín sagði að orkuverið í Svartsengi ásamt borholusafni og vinnslubúnaði hafi umtalsvert fjárhagslegt virði en ekki verði síður að horfa til þess að mjög vandasamt og dýrt yrði að koma á varaafli. „Fyrirliggjandi upplýsingar benda til þess að kostnaður við kaup á neyðarkyndistöðvum sem duga fyrir lágmarksupphitun fyrir öll Suðurnes, sem er u.þ.b. 30.000 manns, og annan nauðsynlegan búnað sé um 2 milljarðar kr. en olíukostnaður vegna neyðarkyndistöðva gæti numið 800-1.500 milljónum kr. á mánuði auk annars rekstrarkostnaðar,“ sagði Katrín sem upplýsti jafnframt að einn slíkur kyndiketill væri til á landinu og unnið væri að því að fullgreina hvaðan unnt væri að kaupa slíka katla og flytja hingað með flugi. Kostnaðurinn við uppbyggingu varnargarðs við Svartsengi er áætlaður 2,5 milljarðar.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka