Sigdalurinn enn virkur og líkur á eldgosi miklar

Sundhnúkagígaröðin liggur í suð-suðvestur að Grindavík.
Sundhnúkagígaröðin liggur í suð-suðvestur að Grindavík. Ljósmynd/Siggi Anton

Langflestir skjálftar verða nú við kvikuganginn, sem liggur undir Sundhnúkagígaröðinni og í suð-suðvestur í gegnum Grindavík. Frá miðnætti hafa mælst 700 skjálftar yfir kvikuganginum, sá stærsti af stærðinni 3,1 við Hagafell.

Aflögunarmælingar sýna áframhaldandi aflögun á svæðinu. Þær eru í samræmi við að kvika flæði enn inn í ganginn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Hér má sjá hvernig landsig og siggengi, eða sigdalur, myndast.
Hér má sjá hvernig landsig og siggengi, eða sigdalur, myndast. Kort/mbl.is

75 rúmmetrar á sekúndu

Segir þar að flæðið á sunnudag og mánudag hafi verið metið 75 rúmmetrar á sekúndu. Dýpið niður á kvikuganginn er talið vera um 800 metrar. Tekið er fram að þessar tölur séu út frá líkanreikningum og séu háðar óvissu.

Megináhersla á vöktun skjálftavirkni og aflögunar er á svæði gangsins og Grindavíkur.

„Nýjar GPS-stöðvar hafa verið settar upp í Grindavík og nágrenni. Þær sýna að sigdalurinn sem myndast hefur er ennþá virkur,“ segir í tilkynningunni.

„Líkur á eldgosi eru því enn miklar. Komi til goss er líklegust staðsetning við kvikuganginn. Ekki er að sjá vísbendingar í gögnum um annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert