Sigið nemur allt að sjö sentimetrum á sólarhring

Stór sprunga liggur í gegnum Grindavíkurbæ vegna sigdalsins sem þar …
Stór sprunga liggur í gegnum Grindavíkurbæ vegna sigdalsins sem þar hefur myndast eða dýpkað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofunnar á sviði jarðskorpuhreyfinga, segir sigdalinn sem myndast hefur undir Grindavík halda áfram að síga. Hann segir sigið í sigdalnum nema allt að 7 sentimetrum á sólarhring.

„Mesta sigið er löngu orðið. Það var bara í upphafi,“ segir Benedikt.

„Núna erum við að sjá kannski mest sjö sentimetra á sólarhring. Og það fer minnkandi.“

Hér má sjá hvernig landsig og siggengi, eða sigdalur, myndast.
Hér má sjá hvernig landsig og siggengi, eða sigdalur, myndast. Graf/mbl.is

Tveggja metra gliðnun

Að sögn Benedikts hefur sigdalurinn haldið áfram að síga frá því að hann myndaðist. „Við sjáum það mjög vel á GPS-mælum að það er stöðugt sig inni í dalnum. Að hluta til er það samfellt og að hluta til eru það sprunguhreyfingar,“ segir Benedikt.

Hann segir að um mikla gliðnun sé að ræða.

„Það var tveggja metra gliðnun þarna eða eitthvað í kringum það og þá sígur landið undir. Þannig að þetta er mjög vel þekkt að þetta hagi sér svona.“

Sprungur geti opnast skyndilega

Benedikt segir að gliðnun af þessari stærðargráðu beri að varast, því í kjölfar gliðnunar geti opnast sprungur sem ekki sjáist á yfirborði og opnist skyndilega.

Hann segir sérfræðinga hafa varað viðbragðsaðila við þessum möguleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka