Skyndileg rýming í Grindavík

Farið var í skyndilega rýmingu í Grindavík á þriðja tímanum …
Farið var í skyndilega rýmingu í Grindavík á þriðja tímanum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blásið var til skyndilegrar rýmingar í Grindavík um klukkan 15. Nokkur asi varð í bænum um leið og þetta var tilkynnt en nú hefur verið dregið úr viðbúnaði. Áfram verður þó haldið með rýmingu.

„Það er sem sagt búið að ákveða að rýma í rólegheitum,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, í samtali við mbl.is.

Brennisteinsgas mældist

„Það mældist þarna gas og því var ákveðið að rýma í rólegheitum. Þetta er ekki neyðarrýming, en ástæðan var þessi púls og þetta er bara einn hluti af þeim tækjum og tólum sem við höfum til þess að greina hvort eitthvað sé að gerast,“ segir Hjördís.

Um er að ræða brennisteinsgas, en nýir mælar hafa verið settir upp við bæinn til að nema það. Hærri gildi gætu gefið til kynna að gos væri yfirvofandi, eins og fjallað var um á mbl.is fyrr í dag.

Frá rýmingunni síðdegis í dag.
Frá rýmingunni síðdegis í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúmlega hundrað manns inni í bænum

„Það kom kall frá almannavörnum um að rýma Grindavík. Það er rýming í gangi á svæðinu en ég held að ástæðan sé ekki alvarleg og það sé ekki mikil hætta á ferðum,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, við mbl.is.

„Við höldum samt rýmingunni til streitu úr því sem komið var þótt hún hafi verið afturkölluð. Aðgerðum lögreglu í Grindavík er lokið frá og með rýmingu í dag,“ bætir hann við.

Öllum sem eru inni í bænum hefur verið stefnt í burtu, en þar voru rúmlega hundrað manns þegar rýmingin hófst.

Blaðamaður og ljósmyndari mbl.is sem eru á staðnum segja sírenur og blikkandi ljós í gangi á öllum bílum viðbragðsaðila.

Fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir að bærinn yrði rýmdur klukkan 16.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka