Með hverjum deginum sem líður þá minnka líkurnar á að eldgos verði í Sundhnúkagígaröðinni og aukast á því að það verði í Eldvörpum. Það er ekki spurning hvort það verði eldgos á næstu dögum og vikum, heldur hvar.
Þetta segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.
Spurður hvort það verði gos segir hann að með hverjum deginum sem líði minnki líkur á gosi í Sundhnúkasprungunni en það verði samt sem áður eldgos í náinni framtíð.
„Það er alveg klárt að það verður eldgos en það er spurning hvar eldgos verður. Stóru flekahreyfingarnar eru komnar í gang og byrjaðar að opna allt kerfið. Þá er alveg ljóst að það verður eldgos einhvern tímann á næstu dögum, mesta lagi eftir eina viku eða tvær,“ segir Ármann.
„Við fengum þennan mikla atburð á föstudaginn, sem er búinn að standa yfir helgina, og á meðan það kemur ekki eldur upp úr Sundhnúkasprungunni þá minnka líkurnar á því að eitthvað gerist í Sundhnúkasprungunni,“ segir Ármann.
Hann segir að á föstudag og laugardag hafi í raun verið mestar líkur á gosi í Sundhnúkagígaröðinni. Þar af leiðandi séu líkur á því minnkandi með hverjum deginum sem líður frá því.
„Kvikan sem er núna úti í Eldvörpum, það er ólíklegt að hún hafi öll farið í þennan gang [Sundhnúkasprunguna], mögulega eitthvað, en hún er enn þá til staðar. Núna kemur bara í ljós á næstu dögum, haldi áfram að rísa þar og haldi áfram að belgjast upp landið út í Eldvörpum og undir Illahraunssprungunni – þá aukast líkur á því að þar komi kvika upp en ekki í Sundhnúkasprungunni,“ segir Ármann.
Nú þarf að skoða mælingar næstu daga til að sjá hvort landris sé ekki alveg örugglega enn í gangi undir Eldvörpum.
„Þegar kvikan er orðin nægileg til að komast upp til yfirborðs þá gerir hún það frekar þar [Eldvörpum] en á Sundhnúkasprungunni,“ segir Ármann.
„Í fyrsta lagi þá erum við á flekamótum. Flekarnir eru stöðugt að fara í sundur en akkúrat flekamótin sjálf, þau geta haldið í sér í svolítinn tíma en þegar þau bresta þá myndast aðstæður svo að kvika komist til yfirborðs og það er að gerast á Reykjanesi,“ segir Ármann og bætir því við að þetta ástand muni vera í gangi næstu 10-15 ár á Reykjanesskaga.
„Þegar þetta kerfi er búið að klára sig af þá fer næsta kerfi í gang. Þá förum við væntanlega annaðhvort í Bláfjöllin eða í Krýsuvíkurkerfið eða jafnvel upp í Hengilskerfið.