Þjónustumiðstöð fyrir Grindvíkinga opnuð á morgun

Tollhúsið stendur við Tryggvagötu.
Tollhúsið stendur við Tryggvagötu. mbl.is/Tómas Arnar

Þjónustumiðstöð vegna jarðhæringanna á Reykjanesskaga verður opnuð í Tollhúsinu við Tryggvagötu 19 í Reykjavík í hádeginu á morgun.

Miðstöðin verður opin á virkum dögum frá klukkan 10 til 18 en verkefni hennar felast í stuðningi við íbúa Grindavíkurbæjar og aðra sem á einhvern hátt hafa orðið fyrir áhrifum jarðhræringanna á Reykjanesi, að því er fram kemur í tilkynningu almannavarna.

Verður þar m.a. boðið upp á samveru og kaffitár og leikhorn fyrir börn.

„Rauði krossinn býður upp á sálfélagslegan stuðning og félagsleg ráðgjöf verður í boði á vegum starfsfólks Grindavíkurbæjar. Boðið verður upp á upplýsingagjöf, fræðslu og ráðgjöf af ýmsu tagi og mun sá stuðningur verða útfærður í samræmi við þarfir og óskir íbúa Grindavíkurbæjar,“ segir í tilkynningunni.

Hvött til að nýta sér þjónustuna

Eru Grindvíkingar og aðrir íbúar á Reykjanesskaga hvattir til að nýta sér þjónustumiðstöðina með öll þau erindi sem á þeim hvíla um atburði síðustu daga.

„Heitt er á könnunni fyrir þau sem hafa tök á að mæta í Tollhúsið í Reykjavík en einnig er hægt að hafa samband í síma 855 2787 og gegnum netfangið fyrirspurnir@almannavarnir.is“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka