Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra, segir að ríkið ætli að stíga inn í til þess að tryggja það að fólk í Grindavík geti fengið greidd laun í ákveðin langan tíma.
„Við tókum fyrir málefnin sem hæst ber í samfélaginu núna varðandi Grindavík. Við horfðum fyrst og fremst til þriggja þátta. Hvernig tryggja megi fólki húsnæði. Þar erum við að horfa bæði til skemmri og lengri tíma því óvissan er mikil um hvenær og með hvaða hætti fólk geti farið aftur inn á svæðið,“ sagði Guðmundur Ingi við mbl.is eftir fund ríkisstjórnarinnar í Ráðherrabústaðnum í dag.
Guðmundur segir að í öðru lagi sé verið að tryggja sálrænan stuðning við fólk og þar er verið að horfa til þess að opna samkomu - og þjónustumiðstöð í Reykjavík þar sem sveitafélagið gæti líka verið með aðstöðu fyrir fólk.
„Þar væri hægt að koma ýmsum upplýsingum til fólks og yrði samkomustaður fyrir fólk úr Grindavík til að hittast á og njóta stuðnings hvert af öðru,“ segir Guðmundur.
Hann segir í þriðja lagi, sem er algjört forgangsatriði, er það sem snýr að afkomu fólks.
„Við erum með talsvert sérstakar aðstæður þar sem sumt af fólkinu úr Grindavík vann þar líka. Það er án húsnæðis eins og sakir standa og er ekki í vinnu. Svo eru auðvitaða aðrir sem búa annarsstaðar en vinnur á svæðinu eða fólk sem býr í Grindavík en vinnur á öðrum stöðum,“ segir Guðmundur Ingi.
Hann segir að horft sé til þess að ráðast í sértækar stuðningsaðgerðir til þess að tryggja að ráðningasamband haldist á milli atvinnurekenda og starfsfólks og tryggja þannig launagreiðslur til fólks.
„Ríkið hefði aðkomu að því og ekki ósvipað og var og gert var í covid heimsfaraldrinum. Fyrirmyndin er sóttkvíagreiðslurnar þar sem var greidd ákveðin upphæð að hálfu ríkisins til viðkomandi fyrirtækis og fyrirtækið greiddi síðan starfsmanninum laun. Sé fyrirtæki ekki unnt að gera þetta þá getur einstaklingurinn sjálfur sótt um.“
Guðmundur Ingi segir að unnið sé að gerð frumvarps í félags - og vinnumálaráðuneytinu í samstarfi við fjármálaráðuneytið og aðilar vinnumarkaðarins munu einnig koma að því. Hann segir það algjört forgangsverkefni að koma með frumvarpið fram og hann vonast til þess að það gerist í þessari viku.
„Skilaboðin eru skýr. Við ætlum að stíga inn í til þess að tryggja það að fólk geti fengið greidd laun í ákveðin langan tíma. Svo verðum við að sjá hvað gerist og hvernig málin þróast áfram,“ segir Guðmundur Ingi.