Undirbúningur á fullu við gerð varnargarða

Orkuverið við Svartsengi þar sem stendur til að koma upp …
Orkuverið við Svartsengi þar sem stendur til að koma upp varnargörðum. mbl.is/Arnþór

Vinna hefur staðið yfir í alla nótt við að flytja efni með vörubílum úr malarnámum á Reykjanesi að orkuverinu í Svartsengi.

Við orkuverið er hafinn undirbúningur að byggingu varnargarða en frumvarp sem veitir dómsmálaráðherra leyfi við uppsetningu þeirra var samþykkt á Alþingi laust fyrir miðnætti í gær.

„Þessi vinna hófst á föstudaginn við að flytja efni að varnargörðunum. Hún var allan föstudaginn og fram á kvöld þar til rýmingin varð. Síðan hófst þessi vinna aftur undir hádegi í gær og stendur ennþá,“ segir Ari Guðmundsson verkfræðingur í samtali við mbl.is.

30 vörubílar á ferðinni í alla nótt

Ari segir að fyllingarefnið sé sótt úr Stapafelli og því sé komið fyrir nálægt orkuverinu. Hann segir að um 30 vörubílar hafi verið á ferðinni í allan nótt í þessum flutningum.

„Nú bíðum við bara eftir nýju hættumati og að fá grænt ljós til hefja vinnuna við að koma upp varnargörðunum,“ segir Ari.

Spurður hversu langan tíma það tekur að koma varnargörðunum upp segir Ari:

„Það fer eftir því hvort við tökum þetta í áföngum eða ekki en þessi vinna getur tekið nokkrar vikur,“ segir hann.

Hjá almannavörnum verður fundað stíft um stöðu mála í allan dag en klukkan 9.30 munu sérfræðingar frá Veðurstofunni og almannavörnum bera saman bækur sínar og í framhaldinu ætti að liggja fyrir nýtt hættumat.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka