285 dýrum bjargað úr Grindavík

Dýrfinna eru félagasamtök sem hjálpa týndum gæludýrum og eigendum þeirra.
Dýrfinna eru félagasamtök sem hjálpa týndum gæludýrum og eigendum þeirra. Samsett mynd/Dýrfinna/Eggert Jóhannesson

Þremur köttum var bjargað úr Grindavík í dag. Þar með hefur 285 dýrum verið bjargað úr bænum síðan hann var rýmdur á föstudag. 

Sjálfboðaliðar á vegum Dýrfinnu hafa tekið þátt í því að bjarga þeim dýrum sem eftir urðu í Grindavík þegar bærinn var rýmdur. Samtökin hafa á þessum tíma bæði haldið utan um lista yfir þau dýr sem urðu eftir, auk þess sem sjálfboðaliðar hafa fengið leyfi til þess að fara inn í bæinn og taka þátt í leit að dýrunum. 

Fimmtán dýr eftir í Grindavík

Upphaflega voru 300 dýr á listanum en nú eru þau einungis fimmtán. Listinn náði þó ekki yfir sauðfé og hesta, segja þær Eygló Anna Guðlaugsdóttir og Anna Margrét Áslaugardóttir, sjálfboðaliðar hjá Dýrfinnu, sem voru við leit í bænum í dag þar sem þær fundu þrjá ketti. 

Nú eru því fimm kettir, ein kanína og níu fiskar eftir í bænum samkvæmt lista Dýrfinnu. Kettirnir og kanínan finnast ekki, en vitað erum staðsetningu fiskanna.

Björgunarsveitarmenn eltu uppi kött

Þær segja að vel hafi gengið síðustu daga og þakka björgunarsveitinni Þorbirni sérstaklega fyrir aðstoðina í dag, en björgunarsveitarmenn frá sveitinni skiluðu til þeirra einum ketti, sem þeir höfðu elt uppi. 

Spurðar hvort þær muni halda leitinni áfram næstu daga ef tækifæri gefst segja þær að því miður sé ólíklegt að þær muni geta það þar sem sveitin hafi verið sett á bannlista og þeim sagt að þær fái ekki að halda aftur inn í Grindavík. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert