Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofunnar á sviði jarðskorpuhreyfinga, segir að kvikuflæðið sé enn talið vera um 75 rúmmetrar á sekúndu inn í ganginn sem liggur undir Sundhnúkagígaröðinni og Grindavík.
„Það eru ekki mjög hraðar breytingar á þessu. Við erum enn þá að horfa á svæðið við norðurhluta gangsins við Sundhnúka, sem er kannski enn þá að þenjast út, og við sjáum mesta gliðnun og aflögun þar,“ segir Benedikt við mbl.is.
„Þarna er ennþá í gangi einhver opnun og þarna gæti verið kvikuflæði ennþá inn í ganginn.“
„Heildarmagnið sem er komið þarna inn er alla vega þrisvar sinnum meira heldur en í fyrsta innskotinu í Fagradalsfjalli,“ segir hann, spurður út í þessa atburðarás samanborið við fyrri gos.
Í samtali við mbl.is í gær sagði hann ljóst að þetta væri miklu stærri atburður en gos síðustu ára á Reykjanesskaga.
Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur kvaðst aðspurður í morgun telja mögulegt gos einna líklegast við Hagafell, austur af Þorbirni og norðan Grindavíkur.
Beinist athyglin nú helst þangað?
„Já, við erum að horfa til Hagafells núna sem mögulegrar miðju á virkninni, eins og hún er í gangi, en aðalathyglin er á Grindavík á meðan fólk er þar að reyna bjarga verðmætum.“