Aðstæður versna enn í Grindavík

Skemmdir eru víða í Grindavík.
Skemmdir eru víða í Grindavík. mbl.is/Eggert Johannesson

Aðstæður í Grindavík eru verri í dag en þær voru í gær. Þetta segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, í samtali við mbl.is.

Undir þetta tekur G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

„Mínir menn hafa ekki séð stórkostlegar breytingar en þetta er allt á ferð og hefur verið að síga,“ segir hann.

„Þeir sjá það svo sem að þetta er að versna, en þeir hafa verið að gera við eins og kostur er í dag. Við leggjum áherslu á að halda öllum flóttaleiðum opnum og færum.“

Greint var frá því á mbl.is í morgun að sigið í sigdalnum næmi nú allt að 12 sentimetrum á sólarhring.

Ekki hægt að eiga við stóru sprunguna

Hann segir að gert hafi verið sprungu á Hópsbraut og á Austurvegi, vestarlega, en ekki stóru sprunguna sem alræmd er orðin eftir að myndir tóku að berast af svæðinu síðustu daga.

„Það er ekkert hægt að gera við hana eins og staðan er núna,“ segir hann.

„Menn hafa þurft að rjúka út á skömmum tíma svo það er eins gott að þetta sé í lagi.“

G. Pétur segir að ekki verði hægt að eiga við …
G. Pétur segir að ekki verði hægt að eiga við stóru sprunguna í bráð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðstæður þóttu hafa versnað í gær

Greint var frá því í gær að þá þegar hefðu aðstæður breyst til hins verra frá því í fyrradag.

Logi Sigurjónsson, lögreglumaður og gæslustjóri í Grindavík, tjáði blaðamanni það á vettvangi í bænum.

Sprungur opnast og rafmagni slegið út

Sprungur opnuðust í Sundahverfi í dag eins og mbl.is greindi frá.

Þá sló rafmagni út í austurhluta bæjarins síðdegis og ekki lítur út fyrir að rafmagn komist þar á í bráð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka