Af hverju Sundhnúkur?

Sundhnúkagígaröðin liggur í suð-suðvestur að Grindavík.
Sundhnúkagígaröðin liggur í suð-suðvestur að Grindavík. Ljósmynd/Siggi Anton

Sundhnúkur er gamalt leiðarmerki af sjó og dregur nafn sitt af því hlutverki. Merkir „sund“ þá tiltekna leið sem var fær fyrir báta, oft þröng siglingaleið milli skerja eða boða.

Um þetta fjallar Árnastofnun á Facebook í dag.

Sundhnúkagígar hafa verið í kastljósinu undanfarna daga, enda er kvikugangur talinn liggja þaðan og til suðvesturs undir byggðina í Grindavík.

Í færslunni segir að Jón Jónsson jarðfræðingur hafi tekið upp heitin „Sundhnúkagígar“ og „Sundhnúkahraun“ í grein í Náttúrufræðingnum árið 1974 og dregið þau af gömlu örnefni, Sundhnúk, sem er hæsti gígurinn í gígaröðinni.

Hnúkurinn gegnt mikilvægu hlutveri

„Það er ljóst af lýsingum að það hefur verið vandasamt að ná landi heilu og höldnu í Grindavík en Sundhnúkur hefur verið eitt af mörgum mikilvægum leiðarmerkjum fyrir innsiglingu í svonefnt Járngerðarstaðasund,“ segir þar enn fremur. 

Þeir sem hafi sótt sjóinn hafi þurft að kunna skil á þessum merkjum, sem gátu verið hvort heldur manngerð eða náttúruleg, og geta lesið í landslagið og síbreytilegar sjónlínur milli merkja eftir því sem fleyið færðist nær landi.

Aðalverstöð Skálholtsstaðar

Lýsing á Járngerðarstaðasundi frá árinu 1931 þar sem Sundhnúkur kemur við sögu er svohljóðandi:

„Varða ofan við húsin á Hópi á að bera í vörðu (Hópsheiðarvörðu), sem stendur uppi í Hópsheiði, og þær aftur í svokallaðan Sundhnúk, sem er ávalur hnúkur á bak við Hagafell. Stefnunni skal haldið á þessi merki, þangað til að Svíraklettur, sem er vestan við Hópsrifið, ber í Stamphólsvörðu, sem stendur á hraunbrúninni, að sjá á Þorbjörn. Er þá haldið á þau merki, þar til Garðhúsaskúr ber norðan til í vörina, þá er haldið á þessi merki, og inn í vör.“

Þá er þess getið að þekking á leiðarmerkjum hafi ekki aðeins verið mikilvæg fyrir heimamenn, enda hafi margir aðkomumenn róið frá Grindavík og aðalverstöð Skálholtsstaðar lengi verið þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert