Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur kært Vy-þrif ehf. til lögreglu vegna matvælagers sem fannst í óhreinu geymsluhúsnæði á vegum fyrirtækisins í Sóltúni sem ekki var meindýrahelt.
Þetta hefur mbl.is fengið staðfest frá Reykjavíkurborg.
Í eftirlitsskýrslum heilbrigðiseftirlitsins kemur fram að víðs vegar í lagerhúsnæðinu hafi fundist ummerki um meindýr. Þá fundust þar einnig lifandi sem og dauðar rottur og mýs.
Jafnframt kemur fram í eftirlitsskýrslunum að heilbrigðiseftirlitið hafi ástæðu til að telja að matvælin hafi verið ætluð til dreifingar en ekki til einkaneyslu.
Vy-þrif ehf., sem er í eigu athafnamannsins, Davíðs Viðarssonar, fékk frest til 14. nóvember til að afhenda upplýsingar um dreifingu matvælanna úr Sóltúni en Reykjavíkurborg staðfesti við mbl.is í dag að fyrirtækið hefði enn ekki svarað erindinu.
Davíð á Vietnam Market og 40% hlut í Wok On Mathöll ehf. sem starfrækir veitingastaði á Höfða og í Hafnarfirði.
Wok on ehf. sendi í síðustu viku frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem tengsl veitingastaðarins við matvælalagerinn í gegnum eignarhald Davíðs í Wok On Mathöll eru hörmuð.
Fyrirtækið sagði að allar þær vörur sem Wok On kaupi fyrir veitingastaði sína sé hægt að rekja til viðeigandi birgja með kvittunum og reikningum og að engin matvæli hafi verið nýtt af matvælalagernum í Sóltúni af þeirra hálfu.