Eigendur matvælalagers kærðir til lögreglu

Í eftirlitsskýrslum heilbrigðiseftirlitsins kemur fram að víðs vegar í lagerhúsnæðinu …
Í eftirlitsskýrslum heilbrigðiseftirlitsins kemur fram að víðs vegar í lagerhúsnæðinu hafi fundist um­merki um mein­dýr. Ljósmynd/Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur kært Vy-þrif ehf. til lögreglu vegna matvælagers sem fannst í óhreinu geymsluhúsnæði á vegum fyrirtækisins í Sóltúni sem ekki var meindýrahelt.

Þetta hefur mbl.is fengið staðfest frá Reykjavíkurborg.

Engin svör frá eiganda lagersins

Í eftirlitsskýrslum heilbrigðiseftirlitsins kemur fram að víðs vegar í lagerhúsnæðinu hafi fundist um­merki um mein­dýr. Þá fund­ust þar einnig lif­andi sem og dauðar rott­ur og mýs.

Jafnframt kemur fram í eftirlitsskýrslunum að heilbrigðiseftirlitið hafi ástæðu til að telja að matvælin hafi verið ætluð til dreifingar en ekki til einkaneyslu.

Vy-þrif ehf., sem er í eigu athafnamannsins, Davíðs Viðarssonar, fékk frest til 14. nóvember til að afhenda upplýsingar um dreifingu matvælanna úr Sóltúni en Reykjavíkurborg staðfesti við mbl.is í dag að fyrirtækið hefði enn ekki svarað erindinu.

Wok on segist engin matvæli hafa nýtt úr Sóltúni

Davíð á Vietnam Market og 40% hlut í Wok On Mat­höll ehf. sem starf­ræk­ir veit­ingastaði á Höfða og í Hafnar­f­irði.

Wok on ehf. sendi í síðustu viku frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem tengsl veitingastaðarins við matvælalagerinn í gegnum eignarhald Davíðs í Wok On Mathöll eru hörmuð.

Fyrirtækið sagði að all­ar þær vör­ur sem Wok On kaup­i fyr­ir veit­ingastaði sína sé hægt að rekja til viðeig­andi birgja með kvitt­un­um og reikn­ing­um og að engin matvæli hafi verið nýtt af matvælalagernum í Sóltúni af þeirra hálfu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert