Björgunarsveitarmaðurinn og Grindvíkingurinn Smári Þórólfsson tók málin í sínar eigin hendur í dag og fjarlægði yfirstrikun sem Vegagerðin hafði sett yfir heiti Grindavíkurbæjar á vegaskilti.
„Maður líður ekkert svona. Grindavík er enn þá til,“ segir Smári í samtali við mbl.is.
Hann segir að það hafi verið glatað að sjá þetta en Vegagerðin er með nokkur skilti við Reykjanesbrautina og við Grindavíkurafleggjarann og á þeim öllum er búið að strika yfir heiti Grindavíkur og Bláa lónsins.
Smári tók niður eina yfirstrikun áðan en stefnir á að klára verkefnið á morgun og hreinsa yfirstrikanir á öllum skiltum.
„Maður lætur ekkert svona vitleysu ganga upp,“ segir Smári og bætir við: „Við Grindvíkingar látum ekkert vaða svona yfir okkur.“