Vegna mikillar óvissu í tengslum við náttúruhamfarir á Reykjanesskaga beinir stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða því til sjóðfélaga sem ekki geta staðið í skilum með afborganir af sjóðfélagalánum vegna tekjufalls, að leita til lífeyrissjóða sinna og fá upplýsingar um þau úrræði sem þeim kunna að standa til boða.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Þar segir að lífeyrissjóðir hafi áður brugðist við efnahagslegum áföllum með því að aðstoða sjóðfélaga sína á erfiðleikatímum, meðal annars vegna COVID-19-faraldursins og þar áður efnahagshrunsins.
„Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða sendir Grindvíkingum hlýjar kveðjur á erfiðleika- og óvissutímum. Hugur okkar er hjá þeim sem óvænt lentu í umfangsmiklum og skyndilegum erfiðleikum vegna hamfara náttúrunnar,” segir í tilkynningunni.