Jarðvísindamenn hafa í dag sagt athyglina sína beinast að Hagafelli, sem liggur norðan Grindavíkur og austur af Þorbirni.
Á kortinu hér að ofan má sjá hvar Hagafell liggur, suð-suðvestur af Sundhnúk þar sem talið er að kvika streymi upp af töluverðu dýpi.
„Já, við erum að horfa til Hagafells núna sem mögulegrar miðju á virkninni, eins og hún er í gangi, en aðalathyglin er á Grindavík á meðan fólk er þar að reyna bjarga verðmætum,“ sagði Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofunnar í jarðskorpuhreyfingum, í samtali við mbl.is í morgun.
Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur hafði þá sagst telja mögulegt gos einna líklegast við Hagafell:
„Ég held að upptakasvæði yfir þessum kvikugangi sé langlíklegast en spurningin er hvar á kvikuganginum eldgos yrði. Það er erfitt að segja til um það en kannski eru mestar líkur á að það verði gos norðan við Grindavík nálægt Hagafelli,“ sagði Freysteinn í samtali við mbl.is.
„En við verðum að vera við öllu búin varðandi eldgos annars staðar.“